144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

framtíðarfyrirkomulag notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar.

[16:09]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég verð að byrja á að lýsa ánægju minni með ræðu hv. þm. Áslaugar Maríu Friðriksdóttur sem talaði á undan mér og óska henni líka til hamingju með jómfrúrræðuna. Það vill svo til að ég er svo heppinn að hafa kynnst lítillega einstaklingi sem nýtur NPA-þjónustu og væri algjörlega fastur heima án hennar. Þessi einstaklingur tekur þátt í flokksstarfinu og ég velti fyrir mér þegar þessi umræða kemur upp hvernig ég kæmi því við að umgangast hann ef hann missti þessa þjónustu. Ég á svolítið erfitt með að ímynda mér hvernig það sé að njóta þessarar þjónustu og geta tekið þátt í félagsstarfi, geta farið út og drukkið bjór með vinum sínum, eða kaffi ef út í það er farið, eða gert það sem einstaklingurinn sjálfur vill, stjórnað lífinu á sínum eigin forsendum án tillits til þess hvað einhverjum öðrum finnst eða hvort einhver annar hafi tíma til þess akkúrat þá. Það er það mikilvæga við frelsið, það að einstaklingurinn sjálfur ákveði það, ekki bara að hann geti gert ákveðna hluti á tilteknum tímum og forsendum, heldur þegar hann vill gera þá hluti og án þess að þurfa endilega samþykki einhvers annars fyrir því, þ.e. umfram það sem almenningur almennt þarf.

Þegar fólk talar um stofnanavæðingu sé ég fyrir mér í þessu samhengi að einstaklingur sem hefur notið þessarar þjónustu hlýtur að líta á það sem óskaplega prísund, jafnvel þótt það sé mjög góð þjónusta á tilheyrandi stofnun. Þegar við píratar fórum að leita að húsnæði var það grunnkrafa hjá okkur að það væri aðgengi fyrir fatlaða. Þegar maður fylgist með slíku ferli fer maður að upplifa hversu bölvanleg staðan er, hversu gleymdur þessi hópur er, hversu auðvelt það er að hugsa með sér „við þurfum ekkert að pæla það mikið í þessu“ þegar það þarf í reynd að pæla í þessu. Það þarf að leggja mikið af mörkum til að þessi gleymdi hópur geti lifað sínu sjálfstæða lífi (Forseti hringir.) með viðeigandi hætti. Því fagna ég þessari umræðu og þeirri þróun sem virðist vera að eiga sér stað þótt hún sé hæg.