144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

framtíðarfyrirkomulag notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar.

[16:11]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka öllum þeim sem hafa tekið til máls og auðvitað sérstaklega ráðherra fyrir góð svör. Hún er sannarlega vel inni í málum, það verður ekki frá henni tekið. Ég er þó, eins og svo oft áður í ýmsum málum, óþreyjufull og það hryggir mig mjög að við séum að horfa á 2016 núna í fyrsta lagi í staðinn fyrir 2014. Við höfum enga vissu fyrir því að nýtt þing setji þetta á oddinn. Mér finnst það framleiðnisóun og tímasóun ef þingið eyðir þá í tvö kjörtímabil kröftum sínum og heilum í að fjalla um þessi mál ef verkefnið dettur svo niður. Ég hræðist það svolítið og hvet ráðherrann til að koma þessu í gegn áður en kjörtímabilinu er lokið.

Ég skil alveg ef það vantar upp á matið en ef það á að halda áfram með óbreytt form á væntanlega samt ekki að bæta við neinum NPA-notendum. Engir nýir komast að. Hvaða nýju gögn bætast þá við þessi fjárhagslegu gögn sem þarf að meta? Eru þau svo viðamikil? Getum við til dæmis byggt á reynslu Norðmanna og Svía eins og hæstv. ráðherra fór svo vel yfir og tekið það sem þau hafa kannað og kunna (Forseti hringir.) og heimfært á okkur?