144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

lyfjalög.

408. mál
[16:25]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðu sína. Ég verð að segja að ég skil alveg ástæður þess að þetta mál er lagt fram. Það er náttúrlega einkennilegt ef leyfa má auglýsingar í einum miðli en ekki í öðrum. Það er eðlilegt að gætt sé jafnræðis og fyrst á annað borð er leyft að auglýsa þá sé það ekki sett í hendurnar eingöngu á prentmiðlum.

Ég er þeirrar gerðar að ég er almennt andsnúin auglýsingum í heilbrigðiskerfinu, ekki af því að ég vilji ekki að fólk fái upplýsingar enda má veita upplýsingar með ýmsum hætti. Heilbrigðisþjónusta er ekki á markaði með sama hætti og fyrirtæki sem keppa á markaði sín á milli til að hámarka arð sinn heldur er heilbrigðisþjónustan samfélagsleg þjónusta og um hana má veita upplýsingar með ýmsum hætti. Ég veit að hæstv. heilbrigðisráðherra er t.d. að vinna að því að koma á laggirnar sérstökum þjónustusíma til að auðvelda fólki að nálgast upplýsingar og ég þarf eiginlega ekki að fjölyrða um tækifærin til að veita fólki upplýsingar með netmiðlum af ýmsu tagi. Við búum einfaldlega í þannig samfélagi að það er mjög auðvelt, sé raunverulegur vilji til þess, að veita fólki allar þær upplýsingar sem þarf um heilbrigðiskerfið án þess að heimila auglýsingar einstakra aðila.

Varðandi auglýsingar á lausasölulyfjum sem frumvarpið fjallar jú um, er verið að leggja til ákveðnar breytingar. Hér erum við að tala um lausasölulyf en það eru lyf sem ríkið greiðir ekki niður og þau eru þar af leiðandi eins og vara á markaði og eru það. En þau eru engin venjuleg vara og því verðum við að gæta að þegar við sníðum löggjöf utan um auglýsingar á lyfjum. Ég man eftir mjög kraftmiklum auglýsingum sem fóru ekki fram hjá manni um verkjalyf sem síðan reyndust valda hjartaáföllum. Það er þannig með ýmis lyf sem við teljum saklaus og tökum að ef þeirra er neytt umfram leiðbeinandi skammtastærðir valda þau mjög fljótt alvarlegum lifrarskaða. Þessu þurfum við að hyggja að. Þess vegna finnst mér þær breytingar sem hér eru lagðar til, en ég ætla ekki að taka afstöðu til þeirra hér og nú, þess eðlis að mér finnst skipta máli að fá umsagnir um þær og umræðu um þær í nefndinni. Þegar við fjöllum um lyf þá erum við ekki að fjalla um venjulega vöru sem hægt er að auglýsa með hvaða hætti sem er. Svo hef ég efasemdir um það atriði að ekki þurfi að vera upplýsingar um verð eða aukaverkanir, ég veit ekki af hverju það þarf ekki. Ég geri mér grein fyrir því að það eru langir listar yfir aukaverkanir en ef það er t.d. þannig að lyf geti valdið lifrarskaða eða börn megi alls ekki neyta þeirra eða slíkt fyndist mér alveg eðlilegt að það þyrfti að koma fram í auglýsingum. En eins og ég segi, ég ætla að láta vera að taka afstöðu í upphafi máls og ætla að sjá til hvað gerist í nefndinni. Ég vil endurtaka að mér finnst eðlilegt, fyrst við heimilum á annað borð auglýsingar á þessari tilteknu vöru, að það sé jafnræði hvað það varðar, en set alla fyrirvara við það að samþykkja breytingar á framsetningu upplýsinga.