144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

lyfjalög.

408. mál
[16:33]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að koma inn í þetta mál. Ég get tekið undir orð hv. þingmanns sem talaði á undan mér um það. Eins og kom fram hjá formanni velferðarnefndar er þetta engin venjuleg vara, lyf eru engin venjuleg vara. Þá datt mér í hug öll sú umræða sem hefur átt sér stað um ÁTVR og það sem við höfum gjarnan kallað brennivín í búðir, því að auglýsingabannið sem þar gildir er að miklu leyti virt að vettugi. Í báðum tilfellum erum við að tala um hluti sem ber að fara varlega með. Þetta tekur þó aðeins á þessum eina miðli, sjónvarpinu. Aðrir miðlar hafa fengið að auglýsa og við sjáum að þetta eru risavaxnar auglýsingar, þetta eru gjarnan heilsíðuauglýsingar sem lyfjaframleiðendur eða söluaðilar nýta sér í dagblöðum. Ég hefði frekar viljað hverfa frá því en að víkka þetta og mér finnst þetta virka sem meiri markaðsvæðing frekar en neytendavernd.

Ég er ekki hlynnt því sem kom fram áðan, að það eigi að keppa um heilbrigðisþjónustuna eða heilsuverndina, eins og einn hv. þingmaður kom inn á. Það sem vekur fyrst og fremst athygli mína í þessu er það sem ekki þarf að koma fram í auglýsingum. Á meðan til dæmis matvælaframleiðendur og aðrir þurfa orðið að vera með ítarlegar upplýsingar á vöru sinni fyrir neytendur er þarna verið að draga úr vægi upplýsinga til neytenda. Mér finnst það ekki í takt við það sem neytendaverndin hefur kallað eftir. Ég hvet nefndina til að huga að því og auðvitað verður áhugavert að sjá umsagnir. Í lyfjalögum er talað um auglýsingar og kynningar lyfja. Í 14. gr. segir, með leyfi forseta:

„Auglýsa má og kynna lyf, sem markaðsleyfi hafa hér á landi á íslensku í tímaritum eða blöðum þeirra heilbrigðisstétta sem ávísa og dreifa lyfjum. Í lyfjaauglýsingum skal tilgreina nafn framleiðanda, heiti lyfs, virkra efna, helstu ábendingar og frábendingar er varða notkun hlutaðeigandi lyfja, pakkningastærðir og verð. Enn fremur stærð skammta og helstu atriði önnur um notkun og aukaverkanir. Framangreindar upplýsingar skulu ætíð vera greinilegar og auðlæsar og í samræmi við það sem greinir í lyfjaskrám.“

Við vitum að vissulega fylgja lyfjum ítarlegar upplýsingar í pakkningum og öðru slíku og þeim lyfjum sem er ávísað af lækni eiga að fylgja leiðbeiningar frá þeim. Þarna er alla vega gert ráð fyrir því að allar upplýsingar séu uppi á borði.

Í 15. gr. segir að heimilt sé að kynna lyf fyrir heilbrigðisstéttum sem ávísa og dreifa þeim en þó á þann hátt að ekki sé líklegt að auglýsingin komi almenningi fyrir sjónir. Verið er að draga úr möguleikanum á því heilbrigðisstéttirnar geti markaðssett tiltekin lyf.

Að lokum langar mig til að vitna í 16. gr. þar sem fjallað er um lausasölulyf. Þar segir að heimilt sé að kynna og auglýsa þau fyrir almenningi en auglýsingarnar skuli vera í samræmi við reglur Evrópska efnahagssvæðisins. Lyfjabúðum er heimilt að auglýsa og kynna þjónustu sína og verð lausasölulyfja og almenn afsláttarkjör. Upplýsingar í auglýsingum eiga ætíð að vera greinilegar og auðlæsar og í samræmi við það sem greinir í lyfjaskrám, reglugerð um gerð lyfseðla og ávísun lyfja, afgreiðslu þeirra og merkingu svo og önnur fyrirmæli sem að þessu lúta.

Sú heimild sem verið er að leggja til hér dregur úr þessu, þ.e. þeim upplýsingum sem þarf að birta. Hér var talað um samkeppni. Af hverju má ekki auglýsa verðið og af hverju er ekki skylt að auglýsa verðið ef þetta á að vera til að aðstoða menn við að komast á markað, þótt ég sé reyndar ekki sérstaklega hlynnt því að verið sé að markaðssetja lyf eða heilbrigðisþjónustu? Ég tek undir með hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur, ég held það hafi verið hún, um aukaverkanir gagnvart börnum eða öðrum sem ekki mega taka lyfin o.s.frv. eða einhver tiltekinn undirliggjandi sjúkdómur, það sé ekki heimilt eða eitthvað slíkt. Ég held að við eigum ekki að gefa afslátt af upplýsingum og mér finnst það skrýtið í ljósi þess að annars staðar erum við að styrkja neytendaréttinn með því að krefjast meiri upplýsinga en minni.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að hafa langt mál um þetta. Mig langaði aðeins að koma inn á það sem mér finnst vert að nefndin velti fyrir sér og sé meðvituð um þegar málið kemur inn aftur og búið er að senda það til umsagnar.