144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

lyfjalög.

408. mál
[16:41]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við erum hér að skoða frumvarp til breytinga á lyfjalögum nr. 93/1994 og breytingin er fólgin í því að bæta miðli sem heitir sjónvarp við þær heimildir sem fyrir eru varðandi auglýsingar á lyfjum sem ekki krefjast lyfseðils.

Auglýsingar sem birtast í prentmiðlum eru oft stærri, eru ítarlegri, taka meira pláss, vara lengur, ef við getum orðað það svo, en sjónvarpsauglýsingar. Ekki hefur verið skylt í auglýsingum í prentmiðlum að greina frá aukaverkunum og öðru í þeim dúr sem greint er frá í leiðbeiningum sem fylgja slíkum lausasölulyfjum. Það er heldur ekkert í lyfjaverslunum sem segir manni, þegar maður kemur inn og ætlar að kaupa lyf í lausasölu, hvaða aukaverkanir þau lyf hugsanlega hafa, ekkert. Þar er engin auglýsing, ekkert sem segir til um slíkt.

Neytandinn, telji hann sig þurfa á lausasölulyfi að halda, verður einfaldlega að kaupa það, hann þarf að opna pakkningarnar og kynna sér hvort hann má taka lyfið með því að lesa leiðbeiningarnar. Er þá ekki skynsamlegra að aukaverkananna sé getið í auglýsingu, jafnt í prentmiðlum sem og í sjónvarpi, frekar en að líta svo á að við eigum ekki að auglýsa lyfið? Við erum þá í það minnsta að upplýsa neytandann, sem fer inn í lyfsöluverslun og kaupir lyfið, um þær hugsanlegu aukaverkanir sem geta fylgt því. Er það ekki meiri og betri neytendavernd en að gera ekki neitt og láta neytandann kaupa eitthvað sem hann síðar kemst að raun um að hann getur ekki nýtt sér? Kannski er ein setning á leiðbeiningarseðlinum sem fylgir sem segir: Ef þetta háir þér eða hitt þá máttu ekki nota þetta lyf. Samt er lyfið selt án þess að það sé lyfseðilsskylt.

Ég held að það væri nær, ef við ætlum að tala um neytendavernd, að gera ítarlegri kröfur um hvað á að koma fram í auglýsingum frekar en að ætla að falla frá því að leyfa auglýsingar í sjónvarpi sem yfirleitt birtast sem stutt blikk. En ef geta á aukaverkana tekur auglýsingin lengri tíma, hún verður kostnaðarsamari og við vitum ekki hve margir eru tilbúnir að fara út í það. Ég held að neytendaverndin sé fólgin í því að menn séu skikkaðir til að segja meira um lyfið en minna frekar en ætla að falla í þá gryfju að segja: Þetta lyf má bara auglýsa í prentmiðlum, ekki í sjónvarpi.

Virðulegur forseti. Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra eins og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir gerði: Af hverju er ekki einfaldlega farið í heildarendurskoðun á reglum um lyfjaauglýsingar fyrst Lyfjastofnun telur það tímabært? Hefur eitthvað komið fram í samræðum við Lyfjastofnun eða starfsfólk þar um þá hugmynd að heimila einfaldlega auglýsingu á lyfjum og líka á lyfseðilsskyldum lyfjum? Það væri fróðlegt að fá að heyra frá hæstv. ráðherra um það.

Virðulegur forseti. Hér er verið að bæta sjónvarpinu inn af því að prentmiðlarnir einir fá auglýsingarnar. Ég sé ekki að neytendavernd sé fólgin í því að banna slíkar auglýsingar í sjónvarpi. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, ég held að neytendaverndin sé að krefja þann sem auglýsir um nánari upplýsingar frekar en hitt.