144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 75/2013 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

425. mál
[17:01]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum aftur. Ég held að menn séu sammála um að það hefur orðið töluvert valdaframsal, en hvort það sé orðið of mikið eða hvort þar rúmist enn þá eitthvað eða hvernig menn orða þetta þá ætla ég ekki að kveða upp úr um það hér. Við þekkjum umræðuna sem hefur verið undanfarin ár, m.a. vangaveltur okkar færustu lagaspekinga, og sitt sýnist hverjum um þetta mál.

Varðandi það hvort við gerum verr en aðrir, fáum á okkur fleiri dóma, þá minnir mig að við stöndum okkur því miður verr en þeir sem eru með okkur á þessu ferðalagi. Það eru ýmsar ástæður fyrir því, eins og ég nefndi hér áðan. Ein af þeim er að sjálfsögðu sú að við höfum sparað mjög mikið í ríkisrekstri undanfarið og ráðuneyti og aðrir sem koma að þessu máli, hvort sem það er löggjafinn eða undirstofnanir, hafa átt mjög erfitt með að sinna verkefninu. Við vonumst að sjálfsögðu til þess að ráðin verði bót á því innan ekki of langs tíma því að við megum ekki gleyma því að við erum aðilar að þessum samningi og berum ákveðnar skyldur hvort sem okkur finnst þær allar góðar eða ekki.