144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[17:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svörin. Varðandi lífskjör og fátækt barna þá er það því miður þannig að námsmenn fá lánað fyrir framfærslu sjálfra sín, maka síns og barna. Þetta fólk fer inn í tölfræðina sem mjög fátækt fólk, vegna þess að það hefur yfirleitt ekki háar tekjur. Af því að það fær lánað fyrir framfærslunni þarf það ekki að hafa miklar tekjur en er að fjárfesta í menntun til framtíðar. Ég hef margoft bent á að meta þyrfti lán til framfærslu sem ráðstöfunartekjur á því ári, en það hefur ekki verið gert enn þá. Þetta skekkir alla umræðu um fátækt og beinir sjónum okkar frá hinni raunverulegu fátækt því að við sjáum hana ekki.

Svo má líka nefna að lágtekjufólk með börn getur oft verið mikið verr sett en til dæmis öryrkjar með börn sem fá barnalífeyri skattfrjálsan og ótekjutengdan. Þá er það spurningin um jafnræði, hvort börn í fjölskyldum sem eru með ákveðnar eignir og tekjur, lágar, þurfi að sætta sig við lakari lífskjör vegna þess að foreldrarnir eru ekki öryrkjar. Þetta held ég að sé mjög brýnt að laga sem allra fyrst vegna þess að ég tel að þarna sé um verulega mismunun að ræða og misrétti sem varla stenst stjórnarskrá.