144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[17:20]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir ábendingarnar frá þingmanninum. Hann hefur verið mjög duglegur við að benda á það sem snýr að námsmönnunum; ég held að það hljóti að vera eitthvað sem Hagstofan þarf að huga að og er hugsanlega þegar farin að skoða, að þetta sé tryggt. Hins vegar þekkjast alveg tilvik um að námsmenn fái námslán en þurfi síðan líka að leita eftir framfærsluaðstoð hjá sveitarfélögunum vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru á milli námslota og annað.

Samkvæmt félagsvísunum er lágtekjuhlutfall skilgreint það hlutfall einstaklinga sem lendir undir þeim lágtekjumörkum sem ég nefndi en lágtekjumörk miðast við 60% af miðgildi ráðstöfunartekna á neyslueiningu. Ráðstöfunartekjur á neyslueiningu taka mið af heildarráðstöfunartekjum heimilis og hversu margir þurfa að lifa af þeim. Tveir fullorðnir með tvö börn þurfa til dæmis 2,1 sinnum hærri ráðstöfunartekjur en sá sem býr einn til þess að vera með sambærilegar ráðstöfunartekjur. Ég legg samt áherslu á að það er mjög mikilvægt að við vinnum þessa hluti í góðu samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga, þ.e. hverjar upphæðirnar eiga að vera.

Eins og kemur fram í frumvarpinu þá er ég ekki bara að tala um upphæðirnar, heldur reglurnar í kringum fjárhagsaðstoðina og ekki hvað síst ef ekki er verið að tala um einstakling heldur hjón, eða fólk sem býr saman, hvernig reglur hjá sveitarfélögunum hafa verið að tengja saman aðstæður þeirra einstaklinga.