144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[17:22]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Við fjöllum um frumvarp til breytinga á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þau eru frá árinu 1991 og voru á sínum tíma algjör tímamótalöggjöf. Aðdragandinn að lögunum var nokkuð langur. Það hafði verið unnið að lögum um félagsþjónustu rúmum áratug áður. Það varð ekki að veruleika, en árið 1986 fékk Alexander Stefánsson Aðalheiði Bjarnfreðsdóttur, þá formann Sóknar, til þess að leiða nefnd til að endurskoða lög um framfærslu. Aðalheiður var vel til þess fallin. Hún var fædd árið 1921. Hún fæddist í sveit. Hún var eitt 20 systkina og þekkti fátækt og þá niðurlægingu og grimmd sem henni fylgir. Hún þekkti líka hvernig það var að eiga undir öðrum og geta ekki átt sömu réttindi og þeir sem efnameiri voru. Hún var því aldeilis vel til þess fallin að koma að þeirri vinnu. Síðan verður Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra og heldur áfram með vinnuna og ákvað hún að víkka út verkefnið og koma á löggjöf um félagsþjónustu sveitarfélaga. Það var loks samþykkt 1991, sú tímamótarammalöggjöf sem skipti sköpum fyrir breytt viðhorf.

Svo ég vitni í greinargerð með því frumvarpi segir:

„Því ber ekki að líta svo á að einstök ákvæði í frumvarpi þessu feli í sér opinbera forsjá á málum einstaklinga eða hópa heldur hið gagnstæða. Í því felst að stuðlað skuli að því að einstaklingnum verði skapað það öryggi og þau skilyrði sem nauðsynleg eru til þess að hann fái lifað og dafnað með eðlilegum hætti í samfélagi við aðra.“

Það er einkenni á þessum lögum að þau eru mjög falleg, ef maður getur sagt það, og vel uppbyggð og skýr í framsetningu. Farið er yfir anda laganna í greinargerðinni, hann kemur fram í markmiðsákvæðum og slíku og eins og með rammalöggjöf er þetta nokkuð matskennd löggjöf. Það skal gengið út frá hjálp til sjálfshjálpar. Það skal gengið út frá virðingu fyrir einstaklingnum og öryggi og rétti allra til að njóta félagsþjónustu.

Svo ég byrji á því kemur þetta frumvarp alveg eins og þruma úr heiðskíru lofti og lagatextinn er algjörlega í andstöðu við lögin, það kemur allt önnur stemning inn í lögin með þeim ákvæðum sem eru í frumvarpinu hér. Við erum eiginlega komin inn í einhverja atvinnuleysistryggingalöggjöf með skýrum skyldum og réttindum, hin matskennda rammalöggjöf er algjörlega yfirgefin í þessum lagaákvæðum.

Þá langar mig til að koma inn á það sem ég hef ekki alveg náð að skilja, af hverju þessi ríka þörf er á að búa til þetta ákvæði. Ég skoðaði hjá Hagstofu Íslands mannfjölda á höfuðborgarsvæðinu, 18–70 ára á tímabilinu 1997–2013. Ég skoðaði hvað það voru margir sem bjuggu á þeim aldri í sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Ég tók aðeins höfuðborgarsvæðið til að létta mér vinnuna og það er ansi stór hópur íbúa sem býr þar. Ég tók fjölda atvinnulausra og ég tók fjölda á fjárhagsaðstoð þessi sömu ár. Þegar ég fór að skoða þá ferla sem komu upp, þegar ég bjó til línurit úr þessu, sýnir það sig að að sjálfsögðu eykst þörfin fyrir fjárhagsaðstoð þegar efnahagsörðugleikar dynja á.

Árið 1997 erum við að koma út úr mjög erfiðu atvinnuleysistímabili. Þá voru 4% íbúanna á höfuðborgarsvæðinu á fjárhagsaðstoð. Árið 2002/2003 erum við að koma út úr efnahagslægð, ekki mjög alvarlegri en þó, þá eru 4% íbúanna á fjárhagsaðstoð. Árið 2013 — ég er með 2013, ekki 2014 en ég veit það hefur fækkað aðeins í Reykjavík á síðasta ári, ég veit ekki með hin sveitarfélögin — var hlutfallið 4,2%. Þannig að árangurinn sem náðist í kjölfar hrunsins við að halda fólki ofan við lægsta öryggisnetið er ótrúlegur. Það er ekkert óeðlilegt ástand. Þetta er bara nákvæmlega sama mynstur og við sjáum þegar efnahagsörðugleikar hafa verið hér. Þá reynir auðvitað á lægsta netið okkar. Það er það sem það á að gera. Það eina sem greinir tímabilið núna frá öðrum tímabilum er að þetta er eina skiptið þar sem hlutfall atvinnuleysis er mun hærra en þeirra sem eru á fjárhagsaðstoð í slíkum þrengingum. Þetta skulum við hafa í huga þegar við ræðum það að fara að skúrka í þessu grundvallarneti.

Varðandi viðmiðin er það rétt að hér er sett inn í lagatextann að það eigi að koma fram viðmið. Svo lesum við greinargerðina, um þetta segir í ákvæðinu: Ráðherra gefur reglulega út leiðbeinandi reglur til sveitarstjórna um framkvæmd fjárhagsaðstoðar og viðmiðunarfjárhæða fyrir fjárhagsaðstoð.

Um ákvæðið sem fylgir með segir að með því sé ætlað að stuðla að því að meira samræmi verði milli sveitarfélaga. Það er ekki verið að gefa miklar skipanir til sveitarfélaganna þarna heldur á að stuðla að samræmi, það væri æskilegt en svo hafa sveitarfélögin það eins og þau vilja, því að það er ekkert í þessu lagaákvæði sem bindur þau á nokkurn hátt.

Þá skulum við fara í (Gripið fram í.) fjárhagsaðstoðina. Ef einstaklingur þarf að reiða sig á fjárhagsaðstoð í Reykjanesbæ og hann á sem einstaklingur rétt á fullri fjárhagsaðstoð, og það þarf að hafa mjög lágar tekjur til þess að eiga yfir höfuð rétt á henni og mjög litlar eignir, fær viðkomandi ef best lætur 129.766 kr. Ef við helmingum það er það 65 þús. kr. á mánuði, eins og frumvarpið heimilar.

Í Vestmannaeyjum, einni af aðalverstöðvum landsins og ríku sveitarfélagi, eru þetta 145.473 kr. á mánuði. Helmingum það, það er 72.500.

Í Reykjavík, sem stendur sig langbest af þessum þremur og að ég held á landinu, eru það 174.952 kr. Með þessu frumvarpi á að heimila að helminga þá fjárhæð í tvo mánuði í senn og sérstaka aðstoð má afnema eða helminga í sex mánuði, en við sjáum hér að í ýmsum sveitarfélögum mun það að hafa gríðarlega alvarlegar afleiðingar.

Við vitum að sveitarfélögin eru eitthvað að skerða og ég mundi kalla eftir því að velferðarráðuneytið færi svolítið ofan í saumana á því hvernig verið er að fara með þau mál. Ég held að það ætti að vera fyrsta verkefnið í þessu.

Ég ætla að taka fram að þegar þetta frumvarp var lagt hér fram og var til umræðu barst fjöldi umsagna og þær voru allar mjög jákvæðar, enda þóttu þetta mikil gleðitíðindi.

Eins og ég fór yfir er hér verið að breyta rammalöggjöf um félagsþjónustu og rétt fólks til öryggis í einhvers konar atvinnuleysistryggingalöggjöf B. Það er verið að búa til nýja atvinnuleysistryggingalöggjöf á nýjum stað.

Gott og vel. Við lengdum atvinnuleysistryggingarnar í fjögur ár eftir hrun til þess að mæta þeim mikla hópi og því mikla atvinnuleysi sem þá varð. Síðan var það stytt aftur í þau þrjú ár sem lögin kveða á um að það eigi að vera. Hvað gerðist hér síðustu áramót? Það var stytt um hálft ár án samráðs við aðila vinnumarkaðarins, þetta eru vinnumarkaðsréttindi. Þannig að í dag, samkvæmt frumvarpinu sem hér er lagt fram, ætti launafólk rétt á tveimur og hálfu ári í atvinnuleysistryggingakerfi A og svo færi það inn á lakari kjör í atvinnuleysistryggingakerfi B.

Löggjafinn gerði ekki svo lítið að kostnaðarmeta þetta almennilega fyrir sveitarfélögin á sínum tíma, en í fyrirspurn sem ég lagði fram til fjármálaráðherra kemur fram að það séu einhver hundruð milljóna sem ríkið spari sér á þessum atvinnuleysistryggingum. Það muni eitthvað lenda á sveitarfélögunum en þetta frumvarp sem nú liggur fyrir, segja þeir, geti leitt til 100–150 millj. kr. lækkunar á útgjöldum sveitarfélaga. Þann sparnað í atvinnuleysistryggingakerfinu sem þarna kemur fram ætlum við að ná fram á fátækasta fólkinu á Íslandi, á sama tíma og okkur berast fréttir um að misskipting auðs fari vaxandi á Íslandi. Misskipting auðs fer náttúrlega vaxandi í öllum heiminum. Á meðan verða til stærri og stærri hópar sem glíma við langtímaatvinnuleysi og ríkið er að bregðast við.

Ég er með fréttir frá bæði Svíþjóð og Danmörku. Í Svíþjóð eru 174 þúsund manns í úrræðum af einhverju tagi. Og ríkið er farið að greiða niður launakostnað fyrirtækja með skatttekjum. Það þykir ekkert vandamál. Í Bretlandi er verið að ræða um í blöðum þessar skilyrðingar, þá grimmd og útskúfun og jaðarsetningu sem þær valda og hvernig áhrif þær hafa á sjálfsmynd fólks og öryggi. Fyrir utan það að rannsóknir benda ekki til þess að þetta hafi einhver sérstök áhrif, heldur sé það fyrst og fremst fagleg ráðgjöf og maður á mann þjónusta við fólk til þess að hjálpa því til sjálfshjálpar. Það er lykilatriðið. Það er hægt að gera og það er gert víða í sveitarfélögum. Það gerir Áfram-verkefnið. Þar þarf ekkert að skilyrða. Þetta er erfitt. En til þess menntum við félagsráðgjafa í fimm ár. Það er innihaldið í því námi og við borgum fyrir það í Háskóla Íslands, án þess að ég ætli að gera félagsráðgjafa ábyrga í þessu máli. Ég bendi aðeins á það að við erum með fagstéttir sem við menntum til þess að hjálpa fólki til sjálfshjálpar.

Það er svo margt sem ég hef að segja, herra forseti. Ég óttast að ég sé að gleyma einhverju, alla vega í þessari lotu. En ég vil segja: Hér erum við með samfélagslegan vanda. Við erum með samfélög þar sem ójöfnuður leiðir til misskiptingar, leiðir til þess að til verður nútímastétt fátæklinga sem búa ekki við atvinnuöryggi eða tekjuöryggi á við aðra í samfélaginu. Ef við ætlum að leysa þann vanda horfum við ekki á þá sem eru fórnarlömb vandans heldur leitum leiða til þess að koma böndum á gerendurna. Við förum inn í kerfin sem eru vandamálið og finnum hvað við þurfum að lagfæra þar áður en við förum að beita svipunni á þá sem síst skyldi leggja byrðar hrunsins á.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu að sinni. Eins og fram hefur komið í máli mínu get ég ekki stutt þetta frumvarp. Við munum að sjálfsögðu taka það til umfjöllunar í velferðarnefnd og vonandi tekst okkur að víkja af þessum vegi.