144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[17:42]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara benda á að í 2. gr. er einmitt reglum sem snúa að skilyrðingum varðandi veitingu fjárhagsaðstoðar beint að einstaklingi sem telst vinnufær að hluta eða fullu. Þessar reglur eiga ekki við. Óheimilt er að skilyrða fjárhagsaðstoð til annars en umsækjanda sem metinn er vinnufær að hluta eða öllu leyti. Ég tel mjög mikilvægt að það sé skýrt í lögunum að við ætlum ekki að skilyrða fjárhagsaðstoð til fólks sem er ekki vinnufært. Síðan er talað um að mat á vinnufærni einstaklings skuli byggjast á samræmdu faglegu mati á færni til vinnu. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að löggjafinn sendi skýr skilaboð um að það sé óheimilt að skilyrða fjárhagsaðstoð nema á grundvelli þess að umsækjandi sé metinn vinnufær að hluta eða öllu leyti.

Ég þakka þingmanninum fyrir ábendingarnar sem snúa að störfum starfshóps um endurskoðun laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og laga um málefni fatlaðs fólks. Hv. þm. Willum Þór Þórsson leiðir vinnuna hvað það varðar. Hún hefur gengið mjög vel. Þaðan koma mjög skýr skilaboð um það, eins og hv. þingmaður talaði um, að sama hversu mikilvæg rammalöggjöf um félagsþjónustu sveitarfélaganna var á sínum tíma þá er hún barn síns tíma.

Það þarf að gera breytingar. Það þarf að finna jafnvægi til þess að tryggja ákveðna grunnþjónustu þannig að skyldur sveitarfélags séu skýrar en halda þó í ákveðinn sveigjanleika og frelsi sveitarfélaga til að bjóða upp á fjölbreytta þjónustu. Ég tel þessar breytingar í samræmi við það. Það endurspeglar, eins og sést í 1. gr. sem ég fór í gegnum, mikilvægi þess að við virðum ákvæðin í stjórnarskránni og sjálfræði sveitarfélaganna. Ég treysti því og veit það og hef séð það að þótt þingmaðurinn sé ósammála (Forseti hringir.) þá hefur hún unnið málið vel í velferðarnefnd. Ég treysti því að svo verði einnig með þetta mál.