144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[17:44]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Menn, sem koma til sveitarfélagsins síns af því þeir hafa engin úrræði önnur en að leita þangað til þess að fá lífsviðurværi, hafa í mjög mörgum tilfellum upplifað mikla höfnun, orðið fyrir áföllum af ýmsu tagi og rekist á marga veggi. Það að setja skilyrði um virkni eins og vandamál viðkomandi sé þá einna helst leti eða uppdráttarsýki er algjörlega í andstöðu við anda laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Það sem þarf að gera er að hvetja fólk áfram. Sumir þurfa bara tímabundna aðstoð og það er ekkert sem kallar á neitt umfram það; ákveðnar aðstæður hafa komið upp sem kalla á tímabundna aðstoð. Aðrir þurfa á því að halda að fá mjög góða þjónustu til þess að komast aftur út á vinnumarkað eða fá lífsviðurværi við hæfi.

Við eigum það öll sameiginlegt sem manneskjur að vilja taka ábyrgð á sjálfum okkur, vera til staðar fyrir aðra og hafa áhrif á samfélagið. Það eigum við sameiginlegt hvort sem við erum alþingismenn, sveitarstjórnarmenn, á vinnumarkaði að öðru leyti eða þurfum að leita til sveitarfélagsins okkar út af erfiðleikum sem við eigum við að etja. Ef ég þarf einhvern tímann á slíkri aðstoð að halda vona ég að mér mæti skilningur á aðstæðum mínum en ekki refsivöndurinn sem sviptir mig lífsviðurværi. (Gripið fram í.)