144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[18:34]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna um þetta mál. Ég vil ítreka það sem ég sagði, eftir að hafa hlustað á ræðu hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur, að ég tel að það sé í raun ekki svo langt á milli mín og þingmannsins hvað afstöðu til málsins varðar.

Það kemur fram á bls. 8 í frumvarpinu að Reykjavíkurborg hefur til dæmis nú þegar, í 3. gr. reglna sinna um fjárhagsaðstoð, ákvæði um heimild til skerðingar á grunnfjárhæð til handa þeim sem ekki eru í virkri atvinnuleit en hafa verið metnir vinnufærir. Telur hv. þingmaður að þau ákvæði sem eru í greininni séu þess háttar að fólk sem hefur verið metið vinnufært ætti ekki að geta uppfyllt þessi skilyrði?

Hv. þingmaður spurði ýmissa spurninga um árangurinn af þeim verkefnum sem farið hefur verið í. Nýlega birti Vinnumálastofnun rannsókn á árangri hinna ýmsu þjónustuúrræða sem hún hefur boðið upp á, og við erum að tala um að þessi hópur sem yrði metinn vinnufær að fullu eða að hluta gæti farið inn í þau. Það hefur sýnt sig að þessi úrræði hafa skilað mjög góðum árangri og mikil ánægja hefur verið hjá því fólki sem tekið hefur þátt í þeim úrræðum.

Nýlega var birt könnun hvað varðar þá sem hafa misst bótarétt sinn, hvað hafi orðið um þá einstaklinga. Það kemur í ljós að meiri hlutinn hefur fengið vinnu og síðan hefur nánara samstarf við sveitarfélögin verið að þróast, þar á meðal Reykjavíkurborg og Hafnarfjörð, um hvað hægt sé að gera til að aðstoða það fólk sem fengið hefur fjárhagsaðstoð. Í þeirri könnun kom fram að 27% þeirra sem misstu bótaréttinn á síðustu tveimur árum höfðu á einhverjum tímapunkti leitað eftir fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna.

Það er líka áhugavert (Forseti hringir.) að í þeim tölum kemur fram að þar er verið að tala um yngra fólkið, karla, (Forseti hringir.) og það er tiltölulega algengt að þeir búi heima hjá foreldrum sínum.