144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[18:43]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég nefndi þetta í einhverri af ræðum mínum í tengslum við fjárlögin og ræddi það líka við velferðarráðuneytið, það var verið að auka fé í endurhæfingarlífeyri. Það var komið með breytingu inn í frumvarpinu, svona með seinni skipunum, af því að þessi umræða er auðvitað töluvert uppi, þ.e. að þeir sem eru að falla út af atvinnuleysisbótum eða eru búnir að vera á þeim lengi séu að fara inn á örorku. Það hefur verið þannig meðal annars með endurhæfingarlífeyrinn að fólk er sett þangað inn sem fer þessa leið, og það getur leitt af sér að viðkomandi sé í þeirri stöðu að verða öryrki eða sé orðinn öryrki. En það er tilhneigingin, og við þekkjum það, það er of stór hópur kvenna á besta aldri sem leita þeirrar leiðar af margvíslegum orsökum.

Hafandi verið sveitarstjórnarfulltrúi skil ég að mörgu leyti þá hugsun hjá sveitarfélaginu að vilja takmarka þennan þátt í rekstri sínum og ég ætla sveitarfélögunum það ekki að vilja ekki þegnum sínum vel. Ég held að það hljóti að vera uppleggið. En það sem ég vil er að geta séð það gerast. Ég er alveg meðvituð um að það fara ekki allir í virkni, en ég vil sjá að fólki sé leiðbeint í alla þá aðstoð sem það þarf, að ef það fær sitt einkaviðtal þegar það kemur og skráir sig í fjárhagsaðstoðina komist það í eitthvert ferli sem leiðir það rétta leið, (Forseti hringir.) hvort sem það er utan sveitarfélagsins eða utan félagslega kerfisins (Forseti hringir.) og inn í heilbrigðiskerfið eða hvað það er, (Forseti hringir.) en það á ekki að þurfa að skerða þetta.