144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[18:47]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það á að aðstoða þetta fólk, heyrðist kallað hér úr sal, ef viðkomandi, eins og ég sagði áðan, vill vinna, er fær um að vinna en fær ekki vinnu vegna þess að kennitalan segir eitthvað. Virkni á að leiða til atvinnu. Hér hefur líka verið tekið fram að sveitarfélög, mig minnir að Hafnarfjörður eða einhver hafi nánast búið til störf á sínum vegum til að koma fólki til vinnu. Það getur algjörlega gert það án þess að skerða bætur þess áður eða eitthvað slíkt. Það er að minnsta kosti margt hægt að gera áður en þessi leið er farin.

Eins og ég sagði í ræðu minni áðan þá hvarf þetta fólk ekki. Við vissum það alveg og við ræddum það hér ítrekað. Þess vegna finnst manni þetta pínulítið vera mótvægisaðgerð gagnvart sveitarfélögunum, til að friða þau, af því að þau hafa kallað eftir þessu. Það er óneitanlega þannig að þau hafa kallað eftir þessu úrræði þó að skiptar skoðanir séu innan sveitarfélaganna, eins og annars staðar, um þá leið. Það eru ekkert allir fulltrúar sveitarfélaga sammála þessari leið.

Eins og ég hef sagt (Forseti hringir.) mundi ég vilja prófa margt annað áður en ég léti mér hugkvæmast að gera eitthvað þessu líkt.