144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[18:48]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu og upplýsandi. Þar sem hv. þingmaður situr í fjárlaganefnd langar mig að ræða við hana um stóru myndina. Það er nefnilega eitt sem er að angra mig í þessu öllu saman og það er að þessi ríkisstjórn er búin að ákveða að stytta atvinnuleysisbótatímabilið, sem þýðir að fleiri þurfa á fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögunum að halda. Nú er verið að þrengja að því, með þessu frumvarpi.

Ráðherrann segir hér og þingmenn stjórnarflokkanna segja það líka í framíköllum að þetta eigi að hvetja til virkni. Á sama tíma, og ég bið þá hv. þingmann að fara aðeins yfir það með mér, hafa menn líka verið að draga úr fjármagni til vinnumarkaðsúrræða á vegum hins opinbera. Mig langar aðeins að ræða við hana um samspilið þar á milli, hvort hún telji ekki að þarna séu ákveðnar mótsagnir á ferð.

Ef við horfum á heildarmyndina þá er hér verið að stytta það tímabil sem fólk án atvinnu getur fengið stuðning sé það samt vinnufært. Við vitum að það er ekkert að þessu fólki. Það er eitthvað að á vinnumarkaði, t.d. varðandi konur sem komnar eru yfir miðjan aldur. Það er erfiðara fyrir þær að fá vinnu og þarna getum við verið að þrengja að þeim. Það eru ekki að koma nein verkfæri til að halda utan um þetta fólk eða fylgjast með því eftir að það dettur út af allri aðstoð.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort hún teldi ekki rétt að við byggjum til eitthvert slíkt verkfæri ef menn ætla á annað borð að fara þessa leið.