144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[18:51]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Við ræddum töluvert þessi vinnumarkaðsúrræði af því að ég held að það hafi komið flestum mjög á óvart hversu skammur fyrirvari var á því að stytta atvinnuleysisbótatímabilið. Það vakti athygli mína að það væri gert í beinu framhaldi af því að skorið var niður til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs, en hæstv. ráðherra hefur reynt að færa rök fyrir því. Síðan var reynt að draga aðeins úr þessu en á móti var búið að ákveða þetta með styttingu atvinnuleysistímabilsins.

Á sama tíma er töluverðu fé bætt inn í endurhæfingarlífeyrinn vegna þess að fólki hefur fjölgað mjög mikið þar og sérstaklega konum á besta aldri. Ég spurði hvort það væri ekki dýrara úrræði, af því að sá sem fer inn á endurhæfingarlífeyri fær mun meiri barnalífeyri, ef hann er á þeim aldri, og svörin voru: Jú, það er auðvitað dýrara úrræði.

Mér fannst þetta ósamræmi. Ég átti samtal við konu sem er akkúrat á þessum vonda kennitölualdri, búin að vera í stabílli vinnu, fyrirtækið leggur upp laupana og hún fær ekki vinnu. Hún gat ekki hugsað sér að skrá sig á fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna, henni fannst það svo niðurlægjandi. En hún sagði: Hvað á ég að gera? Og það kannski kemur að því sem hv. þingmaður sagði, það er þetta með að búa til einhvern ramma. Hæstv. félagsmálaráðherra svarar því kannski hér, þegar hún tekur saman þessa umræðu, hvort slíkt hafi verið gert eða eitthvað sé búið að huga að því að það séu verkfæri í kringum það fólk sem missti vinnu og fer ekki inn á félagsþjónustuna.