144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[19:08]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég átti við var að horfa til þess hver grunnviðmiðin eru hvað varðar neysluviðmiðin. Í talaði í fyrri ræðu um það sem skilgreint er sem lágtekjumörk. Velferðarvaktin var að kynna tillögur um hvernig hægt sé að aðstoða þann hóp sem er undir lágtekjumörkum á Íslandi, sem eru rúmlega 9%, og þar held ég að viðmiðið sé í kringum 170 þúsund. Við getum held ég öll verið sammála um að það getur ekki verið auðvelt að lifa á þeirri upphæð í íslensku samfélagi.

Ég hef ekki litið á þetta sem refsivönd heldur frekar að þetta sé til upplýsingar. Það hefur raunar verið hugsunin með nefndinni, sem hefur unnið að og komið með tillögu að nýrri stjórnsýslustofnun á sviði félagsþjónustu og barnaverndar, að horfa til þess hvað t.d. landlæknisembættið hefur verið að gera í heilbrigðisþjónustunni, að það séu sett ákveðin gæðaviðmið þegar kemur að þessum mikilvægu þáttum velferðarkerfisins. Við lítum svo á að þegar við gerum kannanir og úttektir á því hvernig þjónusta er veitt sé það ekki til þess að refsa heldur til þess að leiðbeina og aðstoða og beina í þá átt sem við teljum að best sé að fara.

Það voru að birtast niðurstöður um hjúkrunarheimili og það hefur oft verið erfið umræða næstu daga eftir á þegar slíkar niðurstöður eru neikvæðar fyrir viðkomandi hjúkrunarheimili. En ég veit að þeir sem starfa þar hafa hins vegar litið á þetta sem hjálpartæki til að gera betur og það er það líka fyrir starfsmenn í félagsþjónustunni, til að átta sig á því hvenær þeir gera mjög vel og hvenær þeir geta staðið sig betur. Þetta eru upplýsingar sem eru einfaldlega ekki uppi á borðinu í dag.