144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[19:11]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir ræðuna. Það er ljóst að við deilum ekki alveg sýn í þessum málum. Ég fór áðan yfir tölfræði um hlutfall íbúa á aldrinum 18–70 ára á höfuðborgarsvæðinu sem þiggja fjárhagsaðstoð og að það hefðu verið 4% 1997, 4% í kringum 2003 í kjölfar efnahagslægðar og nú væru það 4,2%. Þetta er það sem gerist af því að það er auðvitað alltaf ákveðið hlutfall sem þarf að reiða sig á þetta. Það er ekki sama fólkið, það er tiltölulega mikil velta á fjárhagsaðstoð enda eru þetta ekki bætur eins og þingmaðurinn benti á, þetta er neyðarúrræði og fólk er almennt fremur skamman tíma í þeim erfiðu sporum að þurfa að þiggja fjárhagsaðstoð.

Nú sjáum við að það er þessi sami taktur og þetta eru svona margir af því að það vantar atvinnutækifæri. Þetta hefur minnkað í Reykjavík milli ára og ég vona að það sé að minnka í öðrum sveitarfélögum líka og það segi okkur að fólk sé að fá atvinnu. Er eitthvað sérstakt sem kallar á þessa breytingu í því ljósi að þetta virðist vera tölfræðilega séð bara það sem gerist í kjölfar efnahagssamdráttar?