144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[19:12]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Persónulega svara ég því játandi. Já, mér finnst að þegar fólk sækir um fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélagi sínu og er metið að fullu eða að hluta vinnufært eigi að skilyrða fjárhagsaðstoðina með einum eða öðrum hætti. Neiti fólk undir slíkum kringumstæðum að taka þátt í slíkri virkni hlýtur að þurfa að grafast fyrir um hvernig stendur á því að umræddur einstaklingur neitar að taka þátt í samvinnu við félagsráðgjafa sveitarfélags til að finna sér vinnu til að geta séð sjálfum sér farborða og óskar heldur eftir fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins.

Þess vegna finnst mér það skynsamleg nálgun. Eins og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sagði þarf flest fólk í afar stuttan tíma að þiggja fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Vinnan með einstaklingana sem þannig er ástatt um er þá að beina þeim í hugsanlega heilsutengd úrræði, ef því er að skipta, inn á heilbrigðisgeirann, og jafnvel inn í mat til örorkubóta ef ástandið er orðið svo slæmt. Hinir sem eru vinnufærir að hluta eða að fullu eiga að taka þátt í virkni og, já, hv. þingmaður, ég tel að það eigi að fara þessa leið.