144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[19:18]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fara nokkrum orðum um frumvarpið sem hér er til umræðu og snertir viðkvæmt mál og vandasamt. Ég held að við getum öll verið sammála um það þó að við höfum kannski ólík viðhorf til þess að ýmsu leyti. Ég nálgast þetta mál út frá því að við þurfum að horfa á umgjörð skilyrðinga og möguleika til þeirra í ljósi heildarstöðunnar í því sem við getum kallað hið opinbera framfærslukerfi. Við þurfum líka að gæta jafnt að virðingu fólks sem þarf á fjárhagsaðstoð að halda og á rétt á henni og hinu að styðja við eðlilegar kröfur sveitarfélaga um einhvers konar skilyrðingar, sem eru ekki endilega hinar ýtrustu kröfur.

Ég lagði á sínum tíma fram frumvarp sem í fólst ákvæði sem veitti heimild að þessu leyti, sem ekki var afgreitt á Alþingi. Ég velti þessu máli mikið fyrir mér þá og síðar, hef rætt það á mörgum vettvangi. Margir innan Samfylkingarinnar eru þeirrar skoðunar að ekki beri að feta þessa leið. Það eru líka mörg sveitarfélög þar sem Samfylkingin er eða hefur verið í meiri hluta sem hafa beitt skilyrðingum að einhverju leyti. Þessi mynd er því fjarri því einföld.

Lykilatriðið í þessu máli held ég að hljóti að vera samhengið og umgjörðin. Ég ætla að byrja á því að segja að mér finnst gott að sjá að í því frumvarpi sem hér er lagt fram er að finna nokkuð ítarleg ákvæði sem afmarki heimildina þannig að hún sé ekki opin, ótakmörkuð, heldur sé hún bundin við tiltekið fólk í tilteknum aðstæðum; jafnframt að hömlur séu settar við því að hægt sé að skerða fjárhagsaðstoð til annars en umsækjanda sem metinn er vinnufær og að bannað sé að skerða mánaðarlega grunnfjárhagsaðstoð um meira en helming.

Við verðum samt að horfa á þetta mál í heildarsamhengi núna. Hvert er heildarsamhengið? Eins og komið hefur fram í umræðunni hér hafa útgjöld sveitarfélaga til félagsaðstoðar aukist, en það er ekki hægt að halda því fram að sá fjöldi sé úr samræmi við það sem hefur verið raunin í kjölfar efnahagsáfalla í fyrri tíð. Það er líka vert að hafa í huga að atvinnuleysisbætur eru grunnaðferð til þess að mæta framfærsluþörf fólks í atvinnuleysi. Um það var þverpólitísk samstaða og milli aðila vinnumarkaðarins árið 2006 að atvinnuleysisbótatíminn yrði þrjú ár en að kerfið yrði byggt upp á virkniúrræðum. Það var um það samstaða af hálfu verkalýðshreyfingarinnar að fallast á að virkniúrræðið yrði lykillinn að öllu og þar af leiðandi þyrftu þeir sem ekki tækju þátt í virkniúrræðum í atvinnuleysi á atvinnuleysisbótum að sæta skerðingu eða sviptingu bóta. Það sem hefur síðan gerst og setur þetta mál í dálítið annað ljós er sú ákvörðun meiri hluta Alþingis í lok síðasta árs að stytta fyrirvaralaust atvinnuleysisbótatímabilið um hálft ár gagnvart þeim sem höfðu áunnið sér rétt í því kerfi.

Ég held líka að það skipti máli fyrir okkur að hrapa ekki að ályktunum um eðli vandans eða stöðunnar. Það er mjög athyglisvert að skoða tölfræðina um þá sem fá félagsaðstoð hjá Reykjavíkurborg, þar sem mestur fjöldi er. Það er almennt talað um að vandinn sé svo mikill vegna ungra drengja en þegar horft er á hópinn undir þrítugu hjá Reykjavíkurborg er meiri hlutinn ungar konur með börn. Við vitum alveg hvaða aðstæður eru búnar ungum, einstæðum mæðrum með börn í íslensku samfélagi. Það er vandi sem verður ekki leystur með skilyrðingum. Það er erfitt að sinna vinnu og að fá störf við hæfi o.s.frv. Tæpur helmingur er atvinnulaus, annaðhvort búinn með atvinnuleysisbótarétt sinn eða hefur engan bótarétt. Það er mjög athyglisvert að 38% þeirra sem fá fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar eru sjúklingar sem eru samt ekki á örorkubótum, sem sagt ekki öryrkjar en það sjúkir að þeir geta ekki unnið fyrir sér. Ég dreg þessa staðreynd fram hér vegna þess að það skiptir máli að afmarka hópinn úr nokkrum áttum, ekki bara úr áttinni: Er fólk að vinna eða ekki vinna? — heldur líka: Hefur fólk forsendur til að vinna, hefur það dagheimilispláss, hefur það aðstæður til að vinna? Við sjáum nýleg dæmi frá Bretlandi þar sem menn hafa gengið fram af ansi mikilli hörku í að auka skilyrðingar. Þar ryðja menn fólki út af opinberri framfærslu með því að bjóða því eitthvað sem það hefur engar forsendur til þess að taka, eins og að bjóða fólki störf sem hefur engan aðgang að barnaheimilisplássi. Auðvitað segir viðkomandi nei og þá eru þeir lausir við hann.

Við þurfum líka að hugleiða að það eru ákveðnar hættur við að gera eins og var gert hér fyrir áramót að stytta bótatímabil atvinnuleysis. Við vitum ekki alveg hvort við erum að búa til einhvern undirklassa sem mun hverfa sjónum okkar í opinberri tölfræði á komandi árum. Ég tók eftir því í viðtali við forstjóra Vinnumálastofnunar nýverið að hann rakti að árangurinn á síðasta ári hefði verið mjög góður hjá þeim sem hefðu misst atvinnuleysisbótarétt, einungis um 20% hefðu ekki fengið vinnu, en það eru samt 20%. Ef sömu tölur munu gilda á því ári sem nú er nýhafið þá vitum við að 1.400 manns munu missa rétt til atvinnuleysisbóta á þessu ári vegna styttingarinnar og 20% af þeim er enginn smáræðisfjöldi, það eru um 300 manns. Ég nefni þetta vegna þess að í Bretlandi, svo ég taki aftur dæmi þaðan, eru menn núna komnir á aðra skoðun. Þar styttu menn bótatímabil atvinnuleysisbóta en ítarlega rökstudd gagnrýni bendir til þess að einungis um 20% hafi fengið vinnu, hinir hafi horfið sjónum, séu komnir í alls konar súpueldhús og bónbjargir til þess að sjá sér farborða. Ég nefni þetta ekki vegna þess að ég ætli að gera ríkisstjórninni upp þær hvatir að vilja fara þessa leið, ég er bara að segja að þetta er hættan sem við stöndum frammi fyrir við kerfisbreytingar.

Ein kerfisbreytingin sem er áhyggjuefni líka er ef við hættum að líta á atvinnuleysisbótakerfið sem grundvallarþátt í framfærslu atvinnulausra og segjum: Styttum þetta kerfi og fólk fer fyrr yfir á félagsþjónustu. Einungis fjórðungur atvinnulausra á rétt til fjárhagsaðstoðar hjá sveitarfélögum. Það eru þá 3/4 sem önnur kerfi verða að grípa. Það hefur ekki verið útfært hvernig það verður gert til fulls nema auðvitað að því marki sem fólk fær vinnu, en það er ekki nema 60% samkvæmt tölunum sem forstjóri Vinnumálastofnunar setti fram.

Ef við förum þá leið að segja að þetta kerfi eigi með skilyrðingum að taka við atvinnulausu fólki erum við að búa til mjög ólíkt réttindakerfi í landinu, mikinn mun milli sveitarfélaga. Sum sveitarfélög standa sig afar vel, önnur síður. Í því felast hættur. Ég mundi þess vegna telja mikilvægt að nefndin kannaði hvort hægt væri að herða ákvæði 1. gr. Ef hið opinbera ætlar að fela sveitarfélögunum svona ríkan þátt aðstoðar við atvinnulaust fólk sem er vel að merkja búið að borga í Atvinnuleysistryggingasjóð iðgjald af launum sínum og á þess vegna rétt til atvinnuleysisbóta og ætlar síðan að stytta þann rétt og láta annað opinbert framfærslukerfi taka við þá vaknar þessar spurningar: Ber þá ekki ríkið ábyrgð á því að tryggja að það kerfi sé sambærilegt milli sveitarfélaga? Verður ríkið þá ekki að bæta það upp ef lökustu sveitarfélögin borga lítið? Eru ekki efnisrök til þess frekar en að hafa lagaákvæðið þannig að hægt sé að skerða um helming að setja viðmið um hversu lágt er hægt að fara? Ég nefni sem dæmi að í síðustu útgáfu velferðarráðuneytisins á neysluviðmiðum er grunnviðmiðið, sem er hugsað sem lágmarksútgjöld í ákveðnum útgjaldaflokkum án tillits til bíls eða húsnæðis, 99.758 kr. Væri ekki ástæða til að segja að ekki væri heimilt að skerða niður fyrir það? Það þýðir að umtalsvert skerðingarsvigrúm er fyrir þau sveitarfélög sem best gera í fjárhæð fjárhagsaðstoðar en lítið fyrir þau sem skammta naumar þarna.

Áhyggjur mínar eru fyrst og fremst þær að þetta verði tæki fyrir sveitarfélög sem hafa ekki metnað til að gera sérstaklega vel á þessu sviði til þess að ýta fólki af bótum. Það er raunverulegt áhyggjuefni. Okkur ber að taka þá áhættu alvarlega vegna þess að við höfum dæmi um það úr öðrum löndum.

Það er líka mikilvægt að muna það að atvinnuleysi er ekki einstaklingsbundinn vandi og það er ekki hægt að sjúkdómsvæða atvinnuleysi. Atvinnuleysi er ekki vegna þess að fólk hafi brugðist. Atvinnuleysi er vegna þess að samfélagið sér ekki fyrir atvinnutækifærum og vinnumarkaðurinn er með eindæmum lokaður. Það eru mjög fá störf í boði fyrir fólk sem búið er að vera lengi atvinnulaust og er þar af leiðandi í langflestum tilvikum með skerta starfsgetu að einhverju leyti, á erfitt með að hefja störf. Við höfum ekkert gert. Það eru engin frumvörp, það eru engar tillögur í því hvernig við ætlum að opna vinnumarkaðinn, fjölga hlutastörfum, fjölga störfum þar sem fólki er gert kleift að koma inn og vinna hluta úr degi meðan það er að koma sér aftur til fullrar starfsgetu. Það er mjög erfitt að fara bara þá leið að sætta sig við ósveigjanlegan vinnumarkað en skerða réttindi fólksins sem er að reyna að komast inn á hann.

Atvinnuleysi er samfélagslegur vandi. Við þurfum líka að hugsa menntaúrræðin í þessu samhengi og alla þessa fjölbreyttu þætti. Það er líka vert að hafa í huga að virkniúrræðin virkuðu þannig fyrir okkur rétt í kjölfar hrunsins, þegar ég var félagsmálaráðherra og við vorum í nauðvörn og atvinnuleysið jókst um næstum því prósent á mánuði sem var einhver hrikalegasti tími sem ég hef upplifað, að við höfðum engin störf að bjóða þannig að virkniúrræðin gátu bara falist í að bjóða fólki námskeið til þess að halda færni en að námskeiðinu loknu blasti ekkert við annað en áframhaldandi atvinnuleysi, sem var alveg hræðileg aðstaða. Fyrir vikið vorum við í þeirri stöðu að líða eins og nuddara sem er stöðugt að nudda og getur ekkert annað gert en að nudda því að það er ekkert annað hægt að gera því að manneskjan kemst ekki út í lífið til þess að láta reyna á krafta sína og sjá hvort hún þarf á frekari nuddi að halda. Það er auðvitað skelfileg staða.

Margir af þeim sem eru núna að missa bótarétt sinn hafa glímt við það að engin störf voru í boði á upphafsárum atvinnuleysis þeirra. Þess vegna held ég við þurfum að stíga af gát til jarðar. Ég legg þessi sjónarmið hér inn. Ég held að það sé gott að málið fái vandaða meðferð í nefnd og að við reynum að marka því skynsamlega umgjörð í samræmi við þau meginviðhorf að atvinnuleysi er samfélagslegur vandi og að skilyrðingar geta ekki verið víðtækari en svo að þær hitti bara fyrir þá sem sannanlega eru vinnufærir og í afmörkuðum mæli.