144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[19:38]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka svörin. Þetta eru nákvæmlega þær áhyggjur sem ég hef. Það sem ég hef líka áhyggjur af er að það gleymist oft að þeir sem sækja um atvinnu búa við mjög mismunandi aðstæður. Til dæmis getur einstæð móðir ekki tekið vaktavinnu. Ef hún hafnar vaktavinnu sem hún á að taka er hægt að skerða réttindin. Ég vona svo sannarlega, því að mér finnst reglugerðirnar sem á að vinna upp úr þessu frumvarpi alls ekki nógu skýrar, að velferðarnefnd, sem málið fer væntanlega til, muni koma með mun skýrari fyrirmæli um það hvernig á að vinna úr þessu. Mér finnst þetta allt of opið. Ég veit það og þekki fjöldamörg dæmi þess að reynt sé að þvinga fólk í vinnu sem það hefur engar forsendur til að geta unnið.

Oft er það þannig að fólk með mikla og langa starfsreynslu, mikla menntun, er sett í vinnu, eða þvingað í hana, sem hentar þeim ekki. Það var þannig hér einu sinni hjá Vinnumálastofnun að það mátti hafna vinnu þrisvar sinnum eða eitthvað slíkt, það var alveg sama hversu kjánalegt og tilgangslaust það var að reyna að skikka fólk í vinnu sem það gat ekki unnið, t.d. út af heimilisaðstæðum. Ég óttast að þarna verði ekki tekið tillit til aðstæðna, hversu lengi fólk hefur verið atvinnulaust og hversu mikið það brýtur marga niður. Ég skil að sjálfsögðu að það séu einhverjir svartir sauðir sem reyna að svindla á kerfinu, en það á ekki að taka á vandamálum í kerfinu með því að gera alla að hálfgerðum glæpamönnum, setja alla undir sama hatt í staðinn fyrir að taka á þeim (Forseti hringir.) málum á sérstakan hátt. Ég óttast (Forseti hringir.) þessa leið mjög mikið og er sammála þingmanninum um að hún mun sennilega færa fólk yfir í öryrkjakerfið, því miður. Það brýtur fólk niður.