144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

lagning jarðstrengja.

[10:35]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Það er rétt sem fram kemur í fyrirspurn hennar að til meðferðar í atvinnuveganefnd nú er tillaga til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Leiðarljósið í þeirri vinnu er einmitt að reyna að stuðla að frekari sátt um þessi mál með það að markmiði að við getum bætt flutningskerfi raforku og styrkt raforkukerfið en gert það með sem minnstum áhrifum og að teknu tilliti til þeirra sjónarmiða sem við þurfum að hafa í huga, bæði út frá kostnaði sem er það veganesti sem flutningsfyrirtækið hefur í dag en einnig út frá öðrum sjónarmiðum sem eru að verða alltaf æ mikilvægari í þessari umræðu, þar á meðal umhverfissjónarmið, þar á meðal sjónarmið annarra atvinnugreina eins og ferðaþjónustu og þar fram eftir götunum.

Skýrslan sem hv. þingmaður vísar til sem unnin er á vegum Landsnets er eftir minni bestu vitund á lokametrunum. Það er verið að vinna að lokadrögum, vinna að útdrætti og öðrum frágangi og mér skilst að hún eigi að liggja fyrir í byrjun febrúar. Ég tel sjálfsagt að atvinnuveganefnd fái þá skýrslu til umfjöllunar og taki mið af henni áður en málið verði afgreitt út úr nefndinni, enda liggur svo sem ekki á að klára það nema fyrir lok þessa þings til að við getum komið þessum málum í góðan farveg.