144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

lagning jarðstrengja.

[10:37]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir þessi svör. Ég tel að það sé mjög mikilvæg yfirlýsing sem hún hefur gefið hér að verið sé að vinna að lokadrögum skýrslunnar og að hv. atvinnuveganefnd fái hana til umfjöllunar áður en við afgreiðum þessi mál, frumvarp til raforkulaga og þingsályktunartillögu um jarðstrengi. Við megum ekki gleyma því að jarðstrengjanefndin sem var skipuð samkvæmt þingsályktun Alþingis hafði það að markmiði að auka hlut jarðstrengja í flutningskerfinu af umhverfisástæðum. Það er mjög mikilvægt að við höfum þau markmið í huga því eins og hæstv. ráðherra benti réttilega á þá snúast þessi mál ekki eingöngu um efnahagslegan kostnað heldur líka um samfélagsleg markmið og umhverfisleg markmið.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og tel yfirlýsingu hennar mikilvæga. Við væntum þess að við bíðum eftir að fá skýrsluna áður en við ljúkum vinnu við þessi risavöxnu mál. Og ég vil ítreka það og bið hæstv. ráðherra að koma inn á það í seinna svari sínu að ég tel að við eigum mjög stórar ákvarðanir fram undan þegar kemur að samþykkt raforkulaga og einnig þeirrar þingsályktunartillögu sem ég nefndi.(Forseti hringir.) Ég held að það skipti sköpum fyrir framtíðina (Forseti hringir.) hvernig flutningskerfið þróast meðal annars, (Forseti hringir.) þannig að ég held að við þurfum að leggja okkur bestu vinnu í þessi mál.