144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

stefna ríkisstjórnarinnar um afnám gjaldeyrishafta.

[10:40]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er nú öllum ljóst að formenn stjórnarflokkanna hafa gjörólíka stefnu í stærstu hagsmunamáli íslensku þjóðarinnar; uppgjöri slitabúanna og afnámi gjaldeyrishafta. Það er grafalvarlegt því að ríkisstjórnin þarf að hafa skýra og sameiginlega stefnu í stærsta efnahagsmáli samtímans. Það er þess vegna óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um hvort gildir, yfirlýsingar forsætisráðherra eða fjármálaráðherra í þessu efni.

Forsætisráðherra hefur nýlega lýst því yfir að skref verði stigin til afnáms hafta í þessum mánuði, janúar, en fjármálaráðherra segir að það verði á fyrri hluta ársins, þ.e. í júní. Hvort er rétt?

Forsætisráðherra hefur lýst því yfir að nauðsynlegt sé að fá út úr þessum samningum umfram núverandi bankaskatt verulegar bætur frá kröfuhöfum fyrir það tjón sem ríkissjóður hefur orðið fyrir vegna bankahrunsins. Fjármálaráðherra hefur hins vegar lýst því yfir að markmiðið með aðgerðunum sé ekki tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Hvort er rétt, hæstv. fjármálaráðherra? Er markmiðið tekjuöflun upp á hundruð milljarða króna eða er markmiðið ekki tekjuöflun?

Hið þriðja sem hér má nefna er að hæstv. forsætisráðherra hefur lýst því yfir að það sé algert skilyrði fyrir afnámi hafta að staða heimilanna í landinu sé tryggð, að þau verði fyrir engum áföllum í tengslum við afnám hafta. Hæstv. fjármálaráðherra lýsti því yfir núna í gær eða fyrradag að á endanum yrðum við bara að taka stökkið í góðri trú.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Er hægt að skilja það öðruvísi en svo að hann telji óhjákvæmilegt við afnám hafta að því fylgi ákveðin áhætta fyrir heimilin í landinu? Hvort gildir þá yfirlýsing forsætisráðherra um að það sé nauðsynlegt skilyrði fyrir afnámi hafta að staða heimilanna sé tryggð eða yfirlýsing hæstv. fjármálaráðherra um að við verðum að taka stökkið í góðri trú?