144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[11:43]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ítreka það sem ég hef heyrt í samtali mínu við fólk og menn hafa fylgst með í fjölmiðlum, ég ítreka að innan Samtaka ferðaþjónustunnar ríkir ekki eindrægni um ákvörðun stjórnar samtakanna. Meðal annars hafa 17 aðilar í ferðaþjónustu skrifað stjórninni bréf og krafist þess að fallið verði frá þessum áformum og að tekin verði upp komugjöld með einhverjum hætti. Því hefur ekki verið svarað af hálfu stjórnarinnar.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um hvort þetta sé frumvarp ríkisstjórnarinnar — já, þetta er stjórnarfrumvarp sem samþykkt var í ríkisstjórn. Ég fór yfir það og ég hræðist það ekki neitt. Á þessu eru skiptar skoðanir. Mitt markmið er að hlusta á þær skoðanir og reyna að ná niðurstöðu í þessu gríðarlega mikilvæga hagsmunamáli.

Ég vona svo sannarlega að hv. þingmaður og þingflokkur hans komi með okkur í þann leiðangur vegna þess að það (Forseti hringir.) var ekki síst fyrir orð til að mynda þingmanna eins og hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur, sem(Forseti hringir.) hvatti til þess að við tækjum málefnalega umræðu um málið, (Forseti hringir.) að ég kom með þetta mál með þessum hætti í þingið.