144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[11:50]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég skal upplýsa hv. þingmann um það að ég hef átt hin bestu samskipti við stöðumælaverði í gegnum tíðina og hef ekkert undan þeirri ágætu stétt að kvarta.

Varðandi komugjöldin eru þar nokkrir ágallar sem urðu til þess að sú leið var ekki valin. Það sama er varðandi gistináttagjaldið. Við sjáum á þeim mótmælum innan Samtaka ferðaþjónustunnar og ágreiningi sem er þar núna að við erum að leggja gjaldið á einn kima ferðaþjónustunnar. Ferðaþjónustan samanstendur af stórri, ólíkri og fjölbreyttri grein og það yrði þá einn kimi hennar sem tæki að sér óþægindin ef svo mætti segja. Mér finnst það galli.

Hitt varðandi innanlandsflugið þá er það þannig að hv. þm. Valgerður Gunnarsdóttir fer fyrir nefnd ríkisstjórnarinnar sem á að leita leiða til að lækka opinberar álögur á innanlandsflug sem stórhækkuðu á síðasta kjörtímabili, eins og þingmanninum er kunnugt um. Sú nefnd hefur ekki skilað niðurstöðum, en það er kannski vegna þess (Forseti hringir.) að þeir skattar sem þar eru eru ekki bara handahófskenndir skattar á eitthvað, heldur eru það sértæk gjöld (Forseti hringir.) sem fara í ákveðin (Forseti hringir.) verkefni. Ef á að aflétta því þurfum við að finna þeim verkefnum (Forseti hringir.) farveg annars staðar (Forseti hringir.) hjá …