144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[12:24]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni Kristjáni Möller fyrir skilmerkilega ræðu hér áðan. Við ræðum nú frumvarp iðnaðar- og viðskiptaráðherra um náttúrupassa sem er í raun eftirlit með för borgaranna um íslenska náttúru og skattlagningu ráðherrans á för og upplifun á ferðamannastöðum íslenskrar náttúru. Hv. þm. Kristján Möller mælir frekar með gistináttagjaldinu sem mun farsælli leið til tekjuöflunar fyrir ferðaþjónustuna og er ég honum sammála um það.

Í frumvarpi hæstv. ráðherra er afar lítið um kostnaðinn og umsýsluna þegar kemur að innheimtu náttúrupassans. Í umsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið kemur fram að þegar kemur að eftirliti með náttúrupassanum, hverjir eru með hann og hvernig hann er notaður, er í frumvarpi ráðherrans gert ráð fyrir einu stöðugildi hjá Ferðamálastofu. Gagnrýnir fjármálaráðuneytið það.

Þess má geta að á síðasta ári var fjöldi erlendra ferðamanna sem hingað kom 1 milljón. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir einu stöðugildi á Ferðamálastofu, ein manneskja á að sjá um eftirlitið þar. Hvaða skoðun hefur hv. þingmaður á vinnslu og undirbúningi frumvarpsins þegar kemur að umstangi og umsýslunni við það?