144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[12:28]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég er honum sammála um að þetta mál er illa úr garði gert og í raun algjörlega óskiljanlegt þegar kemur að framkvæmdahlutanum á frumvarpinu, að við tölum nú ekki um prinsippið sem liggur þarna á bak við, sem er náttúrlega að hafa eftirlit með borgurum og skattleggja för þeirra um íslenska náttúru.

Hv. þingmaður minntist á að gistináttagjaldið væri ódýrasta leiðin. Þar er ég honum sammála vegna þess að hvergi kemur fram nákvæmt kostnaðarmat á umstangi og umsýslunni við innheimtu náttúrupassans, á öllum þeim stöðugildum sem þar verða — eða ekki, við vitum ekkert um hversu mörg stöðugildi eiga að vera við innheimtu náttúrupassans.

Það væri líka gott að heyra frá hv. þingmanni hvað honum finnst um tekjumissi ríkissjóðs sem verður með því að fella niður gistináttagjaldið, það eru um 250–300 millj. kr. sem ríkissjóður afsalar sér með frumvarpi iðnaðar- og viðskiptaráðherra.