144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[12:29]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna síðustu orða hv. þingmanns í andsvari hans þá kemur fram í kostnaðarumsögninni að tekjur af gistináttaskatti, sem eru 250–300 millj. kr. á ári, eins og áætlað er að þær verði árið 2017, falla niður.

Ég hef stundum hugsað það og kannski sérstaklega eftir að hv. þingmaður nefndi það hér, hvort ástæðan fyrir því að hæstv. ráðherra og núverandi ríkisstjórn leggja ekki til gistináttagjald, og þá alveg sérstaklega hæstv. ráðherra vegna þess að ég held að þetta sé bara hennar einkamál, það virðist enginn standa á bak við þetta mál, sé vegna þess að gistináttagjaldið var sett á í tíð síðustu ríkisstjórnar. Ég hef hugsað hvort það sé jafnvel hálfgerð meinbægni að fella niður ýmislegt sem síðasta ríkisstjórn kom á og gerði vel, eins og til dæmis ferðamannaátakið sem ég gat um, eða gistináttagjaldið. Það hefur verið útfært í nokkur ár og vafalaust eru einhverjir hnökrar á því sem sníða þarf af þegar betri reynsla er komin á það. Við þurfum að vera í sambandi við þá sem eru í greininni og rukka þetta gjald fyrir okkur og segja hvernig á að gera þetta og hvernig það verður best gert.

En hluti af ástæðunni fyrir því að ég hef tekið ástfóstri við gistináttagjaldið frekar en annað núna er hversu ódýr leið það er. Þeir sem selja gistinætur segja kannski: Ríkið er alltaf að leggja á okkur einhverja skyldur til að afla tekna fyrir ríkissjóð. — Já, það er alveg rétt, en það kemur þeim til góða til lengri tíma litið þegar við klárum þetta mál og ferðamenn sem kaupa gistingu hjá þeim verða ánægðir og fara öruggari um ferðamannastaði og fá betri þjónustu.