144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[14:27]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er einmitt það, heimild til að sekta einhvern verður að vera byggð á mjög skýrri lagalegri umgjörð. Það er þetta sem mér finnst vera klunnalegasta atriðið í frumvarpinu, þ.e. að það er mjög opið. Þó að menn segi að þetta séu 10 til 12 staðir þá geta einkaaðilar, eins og ég nefndi í ræðu minni, sótt um að gerast aðilar að þessu líka og verða ferðamannastaðir. Þetta getur þanist út.

Það er fullt af stöðum á Íslandi sem við tölum ekkert um í daglegu tali sem ferðamannastaði. Svo þegar rýnt er í það þá eru það tugir þúsunda sem koma þangað á ári hverju, ég nefni Deildartungu sem dæmi. Ég held að það séu upp undir 100 þús. manns sem koma þangað og skoða. Af hverju er það ekki ferðamannastaður? Þenst þetta ekki út?

Hver er þá orðin hin lagalega skýra forsenda til þess að sekta einhvern ef hann er þar? Þetta er bara orðið mjög erfitt. Og að beita viðurlögum? Ég get alveg séð fyrir mér að margir Íslendingar láti reyna á þetta, láti sekta sig út um alla koppagrundir. Og hvað? Kemur fjárnám eða hvað? Og svo ef þú ert útlendingur, máttu ekki fara úr landi ef þú ert ekki búinn að borga? Og þannig mætti áfram telja. Já, ef nógu margir gera vandræði í kringum þetta, nógu umdeilt verður þetta, þá fer ferðaþjónustan að snúast allt of mikið um þetta. Vilja Íslendingar bara rukka mann um peninga?

Maður borgar mjög víða á ferðum sínum alls konar gjöld þegar maður rýnir í reikninginn til dæmis á Flórída. Það eru alls konar markaðar tekjur. Ég held að það sé þannig að ef maður kaupir bjór á bar þá rennur ákveðin prósenta til útigangsmanna svo að dæmi sé tekið. Maður gerir engan ágreining um það. Ég held að ef fólk sæi á seðlinum sínum, reikningnum, að hluti gjaldsins rynni (Forseti hringir.) til náttúrunnar og uppbyggingar ferðamannastaða á Íslandi þá held ég (Forseti hringir.) að enginn geri ágreining um það.