144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[14:50]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður spurði undir lok sinnar ræðu hvort þetta væri rétta leiðin. Svar mitt er mjög afdráttarlaust: Nei, þetta er ekki rétta leiðin, þetta er satt að segja vitlaustasta leiðin sem hægt er að hugsa sér til þess að afla tekna til að byggja upp aðstöðu á ferðamannastöðum. Ég mun aldrei samþykkja þetta frumvarp, ég mun aldrei kaupa náttúrupassa og ég mun aldrei borga sekt vegna þessa. Þá held ég að næsta skref hjá hæstv. ráðherra sé að fjölga fangelsum í landinu til þess að taka fólk eins og mig og hæstv. forseta og marga fleiri sem aldrei munu selja sig undir ok þessara laga. Aldrei. Almannarétturinn er helgur. Frelsi okkar til þess að ferðast um okkar eigið land og skoða það er helgur réttur. Klaufaskapur einhvers hæstv. ráðherra má aldrei verða til þess að það verði af okkur tekið.

Ég er algjörlega sammála því sem fram kom í ræðu hv. þingmanns og fannst hún öðrum betur sem hér hafa talað í dag taka á prinsippatriðinu í þessu máli sem er almannarétturinn. Það er eitt af fáum ákvæðum sem lifað hefur í lögum allar götur frá þjóðveldisöld. Þetta hefur alltaf verið eitt af því sem menn hafa gætt í gegnum allar lagabreytingar um náttúruvernd. Síðast í fyrra ræddum við það í þessum sölum. Ég heyrði ekki betur en þá væru allir sammála því, en nú kemur hæstv. ráðherra og leggur fram frumvarp sem steytir beint í hjarta þessa ákvæðis.

Þess vegna tek ég undir með öllu sem hv. þingmaður sagði og spyr hana hreinskilnislega, og vildi gjarnan að hún svaraði mér fyrir hönd flokks síns: Kemur það nokkru sinni til mála að Vinstri hreyfingin – grænt framboð samþykki þetta frumvarp, þessa leið, jafnvel þótt einhverjir skafankar verði af skornir? Hér er einfaldlega verið að brjóta grundvallarrétt. Það má aldrei gerast.