144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:04]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi orð. Ég tel svo sannarlega að okkur skorti oft og tíðum að ræða framtíðarsýn, hvort sem það er í þessari atvinnugrein eða á öðrum sviðum samfélagsins, hvernig við viljum byggja upp samfélagið.

Það er líka annað sem mig langaði að minnast á en kom ekki að í fyrra andsvari mínu, það er einmitt það að ég hefði gjarnan viljað sjá líka í frumvarpinu meiri áherslu á landvörsluna, ekki bara uppbyggingu ferðamannastaðarins heldur líka í landvörslunni sem hefur gjörsamlega blætt út vegna fjárskorts og skorts á mannafla. Landvarsla er svo mikilvæg í því að fræða fólkið sem er að ferðast um og koma inn á þessa viðkvæmu ferðamannastaði. Það er líka hluti af þeirri sýn sem við viljum hafa með í öllu apparatinu, þ.e. fræða og uppfræða fólk, hafa fólk sem hefur aflað sér menntunar á sviði landvörslu og landfræðilegra vísinda og getur frætt þá sem koma inn á þessi svæði um jarðfræðina, um landafræðina, (Forseti hringir.) um umgengni og náttúruvernd o.s.frv. (Forseti hringir.) Það er partur af því.