144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:05]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína. Hún lagði mikla áherslu á framtíðarsýn í þessum efnum. Það er auðvitað ekki hægt annað en taka undir það og mikilvægt að þeir sem hér sitja hafi framtíðarsýn. Hún nefndi einnig sem rétt er að það mál sem er hér til umfjöllunar í dag um náttúrupassa hefur verið til skoðunar í a.m.k. tvö ár hjá hæstv. ráðherra eða í viðeigandi ráðuneyti. Ég vek athygli á því líka að heimild til gjaldtöku hjá nokkrum náttúruperlum hefur verið í einstökum lögum um allnokkurt skeið og mun lengur.

Í ljósi mikilvægis framtíðarsýnar sem hv. þingmaður talaði um og í ljósi þess aðdraganda sem þetta mál hefur haft hefði einmitt verið upplagt að hér væri lýst þeirri framtíðarsýn sem hv. þingmaður telur brýnt að komi fram, hennar framtíðarsýn á þessi mál. Ég hygg, og hún svarar því kannski ef hún er mér ósammála, að við séum sammála um að aðbúnaði við náttúruperlur sé ábótavant. Hvaða leiðir vill hv. þingmaður fara til þess að bregðast við aðsteðjandi vanda á þessum stöðum? Það kom ekki fram í ræðunni, en ég hjó eftir því að í andsvörum nefndi hún gistináttagjaldið sem fýsilegri kost, taldi það vera auðveldara að deila úr sjóðum sem safnast eftir gistináttagjald.

Ég spyr hv. þingmann: Er einhver grundvallarmunur á þessari söfnunaraðferð, gistináttagjaldinu, eða þeirri aðferð sem lögð er til í frumvarpinu að hennar mati?