144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:07]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka spurningu hv. þingmanns.

Ég vil minna á það að Vinstri hreyfingin – grænt framboð lagði til í umræðu um fjárlagafrumvarpið að lagðir yrðu til peningar og fjármunir í innviði og uppbyggingu ferðaþjónustunnar þannig að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur sýnt áhuga sinn og beðið um fjármagn til þess að styrkja innviði ferðaþjónustunnar.

Hv. þingmaður velti fyrir sér hvort einhver munur væri á gjaldtöku gistináttagjaldsins og svo þeirri aðferð sem kemur fram núna með náttúrupassanum í frumvarpi ráðherra. Já, ég tel vera reginmun á, þar sem gistináttagjaldið er gjaldtaka á fyrirtæki í ferðaþjónustu sem skila ákveðnum hagnaði, skattlagning á þau fyrirtæki sem fer í sameiginlega sjóði okkar og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum verið sammála um að þar sé hægt að eyrnamerkja tekjustofna til uppbyggingar á ferðamannastöðum eða í ferðaþjónustu. Þannig að við teljum, ég er sammála flokknum mínum í því, að það sé vænlegri leið, einfaldari leið, skilvirkari leið, að afmarka tekjustofna úr sameiginlegum sjóðum okkar með skattlagningu á borð við gistináttagjaldið og eyrnamerkja fjármuni sem eiga síðan að fara til uppbyggingar á innviðum ferðaþjónustunnar. Ég tel það vera einföldustu leiðina og þá skilvirkustu. Það er svar mitt við því.

Ég er mjög fegin því að þingmaðurinn deili með mér þeirri hugsun og því ákalli um framtíðarsýn í ferðaþjónustu, þessari vaxandi atvinnugrein sem er spennandi og skilar þjóðarbúinu miklum tekjum og er okkur öllum til framdráttar, býr til fullt af spennandi og áhugaverðum störfum, en við þurfum (Forseti hringir.) framtíðarsýn og stefnu í þeirri atvinnugrein. Ég er mjög fegin að heyra að þingmaðurinn (Forseti hringir.) deilir með mér þeirri skoðun.