144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:11]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka þingmanninum kærlega fyrir spurninguna. Ég verð bara að játa það að þegar ég gisti á hótelum erlendis og borga einhvers konar gistináttagjald set ég það ekki sem einhver skilyrði að það gjald fari í uppbyggingu eða sameiginlega sjóði viðkomandi lands. Ég næ ekki alveg tengingunni við það sem hv. þingmaður segir, um erlenda ferðamenn sem gista hér á landi og borga gistináttagjald sem er nota bene 100 krónur á nótt. Ég átta mig ekki alveg á samhenginu. Ég átta mig hreinlega ekki á því hvað hv. þingmaður er að tala um vegna þess að við greiðum jú einhvers konar gjöld til viðkomandi landa þegar við ferðumst á erlendri grundu og ég tel það ekki eftir mér. Ég held að það séu ekki margir sem telji það eftir sér að skilja eftir einhvern pening í því formi til uppbyggingar í viðkomandi samfélagi. Þannig að ég átta mig ekki alveg á þessari hugleiðingu þingmannsins, hugsanlega getum við rætt það betur hér til hliðar.