144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:26]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tók vel eftir því að inntak ræðu hv. þingmanns sneri að auðlindagjaldi í ferðaþjónustu og víst er það áhugaverður vinkill. Ég velti hins vegar fyrir mér framkvæmdinni vegna þess að ef við tökum bara dæmi af einum sjálfstæðum jeppabílstjóra sem hefur tekjur af því að flytja fólk upp á jökla, hvernig ætlum við að reikna auðlindarentuna af því fyrir hann versus þá einhverja aðra sem gera út á aðrar perlur?

Ég ætla á hinn bóginn að árétta það sem ég sagði áðan að gistináttagjaldið sem slíkt er ekki gjald ferðaþjónustunnar. Það er gjald á gesti, ekkert öðruvísi en vaskur eins og ég sagði áðan, ég held því að það sé nokkuð klárt.

Annað er hitt að nú er gistináttagjaldið, sem upphaflega átti að vera skattur, búið að vera á í um sex ár. Það átti upphaflega að skila 320 milljónum þegar það var reiknað út fyrsta sinni, greiddi þá 80 milljónir, á þessu ári á það að skila 146 milljónum, ef ég man rétt. Við erum hins vegar að tala um að heildarumfang tekna af náttúrupassa, eins og hann er settur upp, gæti numið auðveldlega á bilinu milljarði til einum og hálfum. Ég spyr: Er þingmaðurinn reiðubúinn að framlengja gjald, eins og gistináttagjaldið, sem ekki hefur skilað sér vel, hefur ekki verið að skila því sem til var ætlast? Innheimtan er flókin, telur þingmaðurinn rétt að framlengja slíkt gjald?