144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:30]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Það var ósköp gott að heyra ljóðið Fylgd. Það kemur svolítið við kjarnann í manni.

Mig langaði aðeins að koma inn í umræðuna sem hv. þingmenn áttu hér á undan mér. Þetta snýst einmitt um að rukka annars vegar einstakling og elta hann uppi eða að rukka í gegnum lögaðila og skila af sér. Það er mjög ólíkt.

Það er í sjálfu sér líka mjög sérstakt að sjálfstæðismenn, sem auglýstu fyrir kosningar að þeir ætluðu að lækka skatta og fækka þeim og guð má vita hvað, séu hér að leggja á viðbótarskatta. Það er nú eitt og sér undarlegt.

Mig langaði aðeins að velta því upp með hv. þingmanni hvort hún teldi í ljósi þeirra aðferða sem við höfum mátað okkur við — nú er búið að ákveða að tiltekin afþreying innan ferðaþjónustunnar verði virðisaukaskattsskyld — að sá skattur mundi geta runnið í merktan sjóð og hugsanlega farin einhver blönduð leið, hvort ríkið geti komið að því sem slíkur aðili á meðan við erum að ná hér upp innviðauppbyggingu að einhverju leyti af því að ferðaþjónustan hefur jú vaxið mjög hratt, hvort ríkið eigi ekki bara að leggja í púkkið að einhverju leyti til að byrja með.

Ég er svo sammála hv. þingmanni hvað varðar auðlindasjóð og að þeir sem bjóða þessa þjónustu greiði í slíkan sjóð. Það er líka tilhugsunin að setja náttúru okkar á markað, eins og ég sagði hér fyrr í dag, að vera gestgjafi í landinu og taka á móti fólki og hugsa fyrst og fremst um að reyna að græða á því.