144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:36]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að mér finnst mjög óljóst hvar mörkin liggja vítt og breitt í þessu frumvarpi og skorta mjög á skilgreiningar. Hvað með, eins og nefnt er hér, sveitarfélagið Hornafjörð? Hvað með svæði eins og Hornstrandirnar til dæmis, ætlum við að fara að selja inn á Hornstrandirnar þar sem hefur verið ferðafrelsi fram til þessa o.s.frv.?

Ég tek líka undir það með þingmanninum að það gæti verið leið sem mér finnst vel þess virði að hugleiða hvernig við skilgreinum flugsamgöngur á Íslandi. Í reynd er innanlandsflugið almenningssamgöngur eins og nú er háttað í samgöngumálum okkar, ég tala nú ekki um ef við hugsum um Vestfirðina svo ég nefni nú það bannorð hér í samgöngumálum. (Gripið fram í: Og í samgönguáætlun.) — Já.

Það eru auðvitað ýmsar útfærslur og leiðir færar. Þingmaðurinn nefndi réttilega skilgreiningu á innanlandsfluginu, einhvers konar lengdarskilgreiningar og annað. Ég tek heils hugar undir það.

Mér finnst vera ákveðinn ábyrgðarhluti að ætla að setja svona grundvallandi löggjöf sem rýfur ákveðin vé og slítur þennan silfurþráð sem ég var að tala um í sjálfsmynd okkar Íslendinga. Það er svo mikið prinsipprof að setja það að jafn óathuguðu máli og taka um leið áhættuna á því að setja svo margt annað í uppnám og skilgreiningar sem þarf síðan að fara að semja og smíða eftir á til að tjasla og bæta flík sem upphaflega var illa sniðin.