144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:39]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Frumvarpið sem er til umfjöllunar um náttúrupassa er ekki komið til út af engu. Aðsókn ferðamanna, íslenskra og erlendra, að náttúruperlum á landinu hefur aukist svo mjög undanfarinn áratug að eitthvað hlaut undan að láta. Nú er svo komið að að náttúrunni á sumum vinsælustu áningarstöðunum steðjar nokkur hætta þrátt fyrir sérstakar aðgerðir til þess að taka af sárustu kvölina, ef svo mætti orða.

Þessar náttúruperlur eru ýmist í eigu einkaaðila eða ríkisins. Það er þess vegna ánægjulegt að ráðherra hafi látið sig málið varða með jafn einbeittum hætti og eftirfylgni sem þetta frumvarp ber með sér. Ég verð að nefna að mér finnst líka ánægjulegt hvernig ráðherra hefur farið um landið og kynnt þetta frumvarp, eða þá fyrirætlan sína að leggja það fram hér, og hefur hann væntanlega fengið að heyra ýmis sjónarmið á þeim ferðalögum.

Hæstv. ráðherra leggur hér til eina lausn í málinu, með því að selja öllum sem það vilja náttúrupassa, aðgang að tilteknum ferðamannastöðum. Á þetta virðast sumir ekki geta fallist en ég verð þó að segja að sú andstaða er studd margvíslegum rökum og er mistilfinningaþrungin eða rökrétt jafnvel. Mig langar af því tilefni að nefna hagsmunasamtök í ferðaþjónustu, sem hafa auðvitað látið sig málið varða. Ég tek sérstaklega fram, þó að ég eigi ekki að þurfa að gera það, að ég tel afar brýnt að fá fram afstöðu þeirra sem helst til þekkja í viðeigandi málaflokkum og það á að sjálfsögðu líka við í þessu máli. Ég verð að segja að mér hafa fundist viðbrögð þeirra sem menn hefðu kannski helst horft til, hagsmunasamtaka í ferðaþjónustu, ansi furðuleg og því miður verð ég að segja ótrúverðug. Mér hefur þótt andstaða þeirra og tillögur bera merki tilviljanakenndrar afstöðu og bera þess merki hverjir sitja þar í stjórnum á hverjum tíma. Samtökin lögðu á sínum tíma til gistináttagjald. Á einhverjum tímapunkti var það sjónarmið haft uppi að svokölluð komugjöld væru æskilegri en gistináttagjaldið og jafnvel það fyrirkomulag sem hér er lagt til.

Því hefur verið haldið fram að þetta sé skattlagning á náttúruunnendur og það má alveg segja það, það má alveg halda því fram. Ég tel þó rétt að draga fram að þetta er fráleitt eina skattlagningin á náttúruauðlindir. Ég tek sem dæmi bensínkostnað sem menn þurfa að leggja út í, bensín er skattlagt hér úr hófi fram. Auðvitað er það skattlagning á ferðalög innan lands. Það er stór ákvörðun fyrir fjölskyldu í Reykjavík að heimsækja Dimmuborgir, það er stór ákvörðun og það er einkum vegna skattlagningar, ferðakostnaðar.

Ég vil líka benda á að gjaldtaka af náttúruperlum eða tilteknum ferðamannastöðum hefur verið heimil í mörg ár samkvæmt nokkrum tilteknum lögum. Ég tek sem dæmi lög um Vatnajökulsþjóðgarð. Þar er heimild til gjaldtöku, ekki aðeins til gjaldtöku vegna veittrar þjónustu heldur er þar beinlínis kveðið á um að heimilt sé að taka gjald fyrir aðgang að svæðinu. Og talandi um Vatnajökulsþjóðgarð, reksturinn á þeim þjóðgarði kostar fjögurra manna fjölskyldu á Íslandi 4 þús. kr. á ári.

Í lögum um Þingvallaþjóðgarð er líka heimild til gjaldtöku. Það er að vísu einungis vegna veittrar þjónustu. Það er reyndar gert, það er rukkað fyrir tjaldsvæði þar, þar er þjónustumiðstöð í gangi sem væntanlega skilar tekjum inn í þjóðgarðinn, án þess að ég þekki það. Það er óþarfi að ræða þetta mál eins og stórkostlegt nýmæli sé á ferð.

Ég átti von á því að hér færi fram frekari umræða hjá þeim sem hafa lýst yfir andstöðu við þetta mál um æskilegri leiðir, tillögur að öðru fyrirkomulagi. En því hefur ekki verið að heilsa, finnst mér, þrátt fyrir að þetta mál, eins og fram hefur komið, hafi verið til umræðu núna markvisst í tvö ár og auðvitað mun lengur. Þessi umræða á því ekki að koma neinum á óvart. Ég ætla svo sem ekki að gera afstöðu annarra manna að umtalsefni heldur lýsa afstöðu minni, vegna þess að ég hef sjálf efasemdir í þessu máli af nokkrum ástæðum sem ég skal fara yfir. Það er einkum það að mér þykir nokkuð skorta á sveigjanleika í því kerfi sem lagt er til. Þar af leiðandi óttast ég að þetta leiði ekki til hagkvæmustu lausnarinnar á rekstri ferðastaðanna.

Ég nefni það að í 1. gr. frumvarpsins er vikið að markmiði laganna sem er að vernda náttúru Íslands með nauðsynlegri uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða. Ég velti því fyrir mér hvort þetta fyrirkomulag nái þeim tilgangi að vernda ferðamannastaðina að því leyti að hér er nokkurs konar „ein fyrir alla“-lausn. Lagt er til eitt gjald sem veitir aðgang að öllum ferðamannastöðum, allt árið um kring. Við vitum það hins vegar að ferðamannastaðir eru misvinsælir og ágangur er mismikill eftir því hvaða tíma á árinu við lítum til. Þetta finnst mér orka tvímælis, það er kannski hægt að finna einhverja lausn á því.

Mér finnst það einnig orka tvímælis að hinir svokölluðu fyrir fram greindu ferðamannastaðir séu ekki skilgreindir í frumvarpinu heldur er vísað til lista sem Ferðamálastofa skal á hverjum tíma halda úti, uppfærðum og aðgengilegum, og þar skuli listaðir þessir staðir í eigu ríkisins en einnig staðir í eigu einkaaðila sem er boðið upp á að taka þátt í þessu fyrirkomulagi. Þetta tel ég óheppilegt, svo ekki sé fastar kveðið að orði, í öllu falli hvað varðar staði í eigu ríkisins. Hér er það alltaf nefnt að menn viti hvaða staðir þetta eru. Nú kann að vera að ég sé ekki betur að mér í landafræðinni en það en ég veit ekki hvaða 10–12 staðir þetta eru nákvæmlega. Ég teldi því fara betur á því að þetta lægi skýrt fyrir.

Menn hafa rætt um ferðamenn og tekjur af þeim og hafa, eins og ég kom inn á í upphafi ræðu minnar, nefnt gistináttagjaldið sem fullbrúklegt í þeim tilgangi að halda ferðamannastöðum við. Ég hef reyndar alltaf furðað mig á því af hverju er ekki byrjað á því að leggja fullan virðisaukaskatt á ferðaþjónustu. Ferðaþjónustan hefur verið undanþegin virðisaukaskatti áratugum saman með alls kyns undanþágum sem ekki nokkur maður getur hent reiður á í fljótu bragði. Nýverið var virðisaukaskattur lagður á hótelgistingu í lægra þrep. Mér fannst það orka tvímælis að hótelgistingin færi ekki strax í efra þrepið, þannig að þeir eru svo sem ekki fullnýttir, tekjumöguleikar af erlendum ferðamönnum, ef út í það er farið. Ég vil hins vegar benda þeim á það sem nefna neysluskattana hér að erlendir ferðamenn koma hingað og kaupa lopapeysur og hvað annað og fá endurgreiddan virðisaukaskattinn af þeim vörum.

Gistimáttagjaldið hefur hins vegar verið þungt í vöfum, einkum fyrir lítil fyrirtæki í ferðaþjónustu. Þegar það var lagt á með skömmum fyrirvara þurftu lítil gistiheimili og lítil fyrirtæki í ferðaþjónustu að fara að fjárfesta sérstaklega í einhverjum tölvukerfum. Þetta er tæknilega oft flókið fyrir minni aðila og ákaflega ógagnsætt, að ég tali nú ekki um hvað undankomuleiðirnar eru margar frá gistináttagjaldinu. Komugjaldið finnst mér alveg með ólíkindum, að menn skuli leggja það til að ræða hér komugjald, þeir hinir sömu sem sjá ofsjónum yfir því að Íslendingar þurfi að greiða fyrir það að horfa og nýta útsýnispalla á náttúruperlum, þeir hinir sömu leggja til komugjald, að maður sem fer í sumarfrí til útlanda eða vinnuferð þurfi að greiða sérstakan aðgang að því að koma til landsins. Mér finnst alveg með ólíkindum að menn skuli leggja það til.

Andstæðingum þessa frumvarps hættir til að líta á fyrirtæki í ferðaþjónustu sem einhvers konar arðránsfyrirtæki, gróðamaskínur. Það er svolítið talað um það þannig og eins og ferðaþjónustan bíði í ofvæni eftir því að fá að taka gjald af ferðamönnum á vel sóttum ferðamannastöðum. Þróun ferðaþjónustu lýtur hins vegar ekki að gjaldtöku heldur að rekstri og ég veit að ferðaþjónustan horfir miklu frekar til þess að bjóða upp á þjónustu á fjölsóttum ferðamannastöðum og hafa þannig tekjur. Og landeigendur, sem búa svo vel að hafa í sinni umsjón áhugaverða ferðamannastaði, óska frekar eftir því að bjóða upp á þjónustu og selja þjónustu og veita þjónustu og hafa þannig tekjur af ferðamönnum. Það er jákvætt. Ég óttast að fyrirkomulag sem þetta, þessi náttúrupassi, dragi örlítið úr þeirri þróun, þ.e. að einkaaðilar láti mögulega reka á reiðanum í þjónustu en bíði þess í stað nánast með útréttar hendur eftir næstu úthlutun úr náttúrupassasjóðnum. Og vel að merkja hefur sjóðurinn sjálfur, að mínu mati, yfirbragð of mikillar miðstýringar.

Ég hef þess vegna viljað halda því til haga að gjaldtaka af ferðamönnum á vinsælum ferðamannastöðum er möguleg á margvíslegan hátt annan en með beinni gjaldtöku við inngang á útsýnispallinn. Mér hefur þótt frekar skorta á það en hitt að boðið sé upp á þjónustu, veitingaaðstöðu, leiðsögn um svæðið og annað þess háttar sem hægt er að fjármagna með uppbyggingu á ferðamannastöðum.

Ég hef hins vegar fullan skilning á því að frumvarp sem þetta sé komið fram. Ég held að það hafi aðeins verið tímaspursmál hvenær gripið yrði til einhverrar svona aðgerðar vegna þess að það er, og ég held að það séu allir sammála um, brýn nauðsyn á að huga að þeim málum. Ég hlakka til að heyra frekari umræður um útfærsluna á þessu og ef menn eru ósammála þessari leið, hvaða aðrar leiðir þeir leggi þá til, raunhæfar leiðir sem menn telja ekki jafn íþyngjandi eða of miðstýrðar eða of flóknar. Ef menn hafi einhverjar aðrar lausnir er auðvitað vettvangur til þess að koma með þær fyrr en síðar.