144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[16:10]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við hv. þingmaður séum trúlega ósammála um grundvallaratriði í þessu máli, sem er það hverjir eigi að borga viðhald og uppbyggingu á ferðamannastöðum. Hverjir eiga að gera það? Eiga íslenskir skattgreiðendur að gera það eða eiga þeir, allir sem einn, íslenskir skattgreiðendur og líka þeir sem aldrei fara og njóta, að borga fyrir 1 milljón ferðamanna, 2 milljónir ferðamanna, útlendinga sem koma hingað? Það er sjónarmið. Sumir hv. þingmenn hafa þetta sjónarmið. (Gripið fram í.) Ég er ekki sammála því.

Frægir staðir, Gullfoss og Geysir, væru ekki aðgengilegir, þar væri ekki opinn aðgangur nema af því að uppbygging hefur farið fram þar. Það væri enginn opinber aðgangur. Það væri búið að loka með sama hætti og það er lokað þegar rignir í Dimmuborgum. Það væri sama aðgengi þar — ekkert. Þetta er því spurning um það hvort menn vilji hafa aðgengi eða ekkert aðgengi að þessum stöðum, ef menn á annað borð vilja vernda náttúruna. Það getur vel verið að einhverjum hugnist það að hafa svo náttúrlega náttúru að hún eigi að fá að þróast með ágangi manna og það megi traðka niður umhverfið í kringum fossa og annað. Það er auðvitað sjónarmið.

Ég tel hins vegar að til þess að hægt sé að ná sátt í svona máli þurfi að hugsa þetta þannig að það sé aðgengi að ferðamannastöðum allt árið fyrir alla. Það verður ekki öðruvísi gert en að þeir borgi sem þangað fara, á þessa staði, og það sé ekki tekið endalaust úr vösum skattgreiðenda, sem fyrir utan það hafa ekki bolmagn til þess að bera þennan kostnað. Íslenskir skattgreiðendur hafa ekki bolmagn til þess að bera þennan kostnað.