144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[16:13]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Atvinnugreinin, hvað vill atvinnugreinin? Ég spyr bara, hvað vill atvinnugreinin? Hún hefur hringlað til hægri og vinstri í þeim efnum. Hún hefur nefnt gistináttagjald og hún hefur nefnt komugjald, hún hefur nefnt allt sem ekki snýr að henni sjálfri á þeirri stundu þegar hún nefnir það. Því miður er það þannig.

Auðvitað vill enginn borga þetta. Auðvitað vilja rútubílstjórarnir ekki borga aðganginn, auðvitað vilja hótelin ekki borga gistináttagjaldið, auðvitað vilja flugfélögin ekki borga komugjaldið. Auðvitað er það þannig. Eina leiðin til þess að leysa málið, án þess að það verði eitthvert laga- eða tæknilegt úrvinnsluatriði, er að þeir borgi sem njóti. Það er ekkert flóknara. Gistináttagjaldið þyrfti náttúrlega að margfaldast. Menn nefndu 100 kr. hér, það þarf auðvitað að margfalda gjaldið ef það ætti að standa undir þessu. Það leggst á menn sem koma hingað og gista eina nótt í Reykjavík, í 101. Það leggst á Íslendinga, alla landsbyggðina, fólkið sem kemur hingað til Reykjavíkur og dvelur á hótelum. Á það að borga þetta?

Þetta er í raun ekki málefnalegt innlegg í þessa umræðu að ætla að velta kostnaðinum (Forseti hringir.) á eina atvinnugrein. Spurðu frekar: Hvað þá vill öll atvinnugreinin?