144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[16:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Vandi okkar er sá að við eigum ekki til peninga til að reka heilbrigðiskerfið, það vantar peninga þar. (Gripið fram í.) Vandi okkar er sá að staða ríkissjóðs er mjög slæm, við erum að borga mjög háa vexti af skuldum ríkissjóðs, það er ekki þannig að hægt sé að ná í peninga hvar sem er.

Þá finnst mér eðlilegt að þeir sem njóta náttúrunnar borgi fyrir það. Það sem hv. þingmaður sagði um framkvæmdina, það skil ég ekki almennilega. Sá sem fer inn á Þingvelli, hann borgar, það er ekkert spurning hvort hann noti stígana eða ekki. Gjaldið er hins vegar notað til þess að byggja upp stíga. Það er markmiðið á bak við það.

Það að fólk missi húsið sitt, þar held ég að hv. þingmaður sé nú dálítið mikið að fantasera. Menn þurfa að borga 1.500 kr. sem gildir í þrjú ár, 500 kr. á ári. (Forseti hringir.) Ég held að það fari enginn að missa húsið sitt fyrir það.