144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[16:35]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Flestir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þó ekki allir, taka yfirleitt afstöðu með auðmagninu. Við höfum séð það hér í dag í þessu máli að þá virðast orðin um frelsi ekki vera annað en hismi, það er enginn kjarni í þeim. Mér finnst það svolítið lærdómsríkt að heyra hér tvo þingmenn Sjálfstæðisflokksins í dag koma í þennan ræðustól og segja að það verði ekkert mál, jafnvel þó að það verði hreyfing þúsunda manna sem af grundvallarástæðum vilja ekki borga svona gjald, vilja ekki borga sektina, þá verði hirt af þeim húsið, þá er það bara aðfararhæft. Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa sagt þetta. Mér finnst það nöturlegt.

Ég er sammála flestu af því sem hv. þingmaður sagði. Hún vísaði inn í framtíðina og sagði: Við verðum að reyna að efla varðstöðu okkar um almannaréttinn. Þá spyr ég hv. þingmann, sem er nú minn sérfræðingur í stjórnarskrárgerð: Er ekki eina leiðin til að koma í veg fyrir svona aðför að slá þetta í gadda í stjórnarskrá?