144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[16:40]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þótti nú óþarfi af hv. þingmanni að bendla sig við einhvern vitleysisgang. Það eru auðvitað ekki, eins og við vitum, neinir vitleysingar á hinu hv. Alþingi.

Hins vegar er til staðar í þessu máli uppgerðarmeinloka sem hver hv. þingmaðurinn í stjórnarandstöðu étur upp eftir öðrum, uppgerðarmeinloka varðandi eftirlitið með náttúrupassafyrirkomulaginu. Þekkir hv. þingmaður hvernig eftirliti er til dæmis háttað með hraðakstri eða stöðumælum í borginni? Er einhver ástæða til að ætla að það sé annars konar eftirlit? Eftirlit með þeim þáttum sem ég nefni fer stundum fram með beinum hætti, stundum ekki. Stundum sleppa menn við sektir. En allir leitast við að framfylgja þeim reglum sem um ræðir, allir. Það eru ekki nema harðsvíruðustu glæpamenn sem gefa það fyrir fram út (Forseti hringir.) að þeir ætli ekki að hlíta reglum og lögum. (Forseti hringir.) Þekkir hv. þingmaður hvernig þessu eftirliti er háttað?