144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[16:42]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þótt ég sé varaþingmaður hér og stoppi stutt við þá veit ég það þó að ég er ekki til andsvara. Ég veit að sjálfsögðu að það er kostnaður við allt eftirlit og því verður ekki öðruvísi háttað í þessu máli. Hins vegar hefur verið reynt að gera það eitthvað tortryggilegt, ekki sé hægt að hafa eftirlit, það sé tæknilega ómögulegt að hafa eftirlit með því hvort menn mæti á eitthvert svæði og gangi þar á göngustígum. Auðvitað er það ekki þannig og það veit hv. þingmaður

Ég vil þó nefna að ég var ánægð með þá ábendingu hv. þingmanns um að að sjálfsögðu koma sumir ferðamenn hingað til að upplifa menningu og matargerð og annað og fara aldrei út í náttúruna. Getum við þá ekki verið sammála um að það sé í hæsta máta eðlilegt að þeir ferðamenn þurfi ekki að kaupa sér aðgang að náttúrusvæðum eða taka þátt í að viðhalda uppbyggingu á náttúrusvæðum? Getur hv. þingmaður ekki líka verið sammála mér um að það er fagnaðarefni að í þessu frumvarpi er boðað afnám á einum skatti? Það er eitthvað og því fagna ég sérstaklega, og það er afnám á gistináttagjaldinu. Getum við ekki verið sammála um það, hv. þingmaður?