144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[16:46]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það sem veldur mér áhyggjum, og ég þakka þetta andsvar, eins og með svo margt annað sem kemur hér inn á Alþingi, er að það vantar heildarhugsun, heildarútfærslu og skýrari sýn. Þarna er verið að bregðast við ástandi sem er núna, en ekki verið að hugsa til framtíðar. Það er bara ekki verið að hugsa til framtíðar og það er mjög algengt í lagasetningu. Þess vegna verð ég að segja að tiltrú mín á lög hefur snarminnkað eftir að ég hef séð hvernig þau eru gerð, það er bara þannig ef ég á að vera fullkomlega heiðarleg.

Það að leggja til að við þurfum að ganga um með sérstök náttúruskilríki finnst mér mjög óþægilegt. Það truflar mig og ég veit að það truflar mjög marga aðra. Þetta er ekki bara einhver náttúrupassi, þetta snýst um ákveðna tilfinningu fyrir því hvernig maður megi umgangast landið sitt, (Forseti hringir.) og ég veit að marga svíður undan því.