144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[16:48]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það er hárrétt og ég held að það væri mjög farsælt ef nefndin sem fær þetta til umfjöllunar leggur það til, því að ég er sannfærð um að þetta mál mun ekki fara alla leið í gegnum þingið. Ég trúi því bara ekki að þetta fari í gegnum þingið.

Við þurfum að vera mjög vel á varðbergi út af því að oft fara skrýtnir hlutir í gegnum þingið sem fólk skilur ekki hvernig hægt var að ná í gegn. Ég er öllu rólegri eftir að hafa tekið eftir því að hæstv. iðnaðarráðherra virðist ekki hafa eldhug gagnvart þessu máli. Ég veit að ráðherrann er mjög fylginn sér þegar kemur að einhverju sem brennur á henni. Þetta er ekki eitt af þeim málum. Þannig að nefndin hlýtur að hafa ansi frjálsar hendur við að koma með tillögur sem falla betur að þjóðarsál Íslendinga.