144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir ágæta ræðu og nokkuð uppbyggilega, alla vega í byrjun. Það gleður mig því að tónninn hefur verið dálítið neikvæður.

Ég las það úr orðum hans að nauðsynlegt væri að tryggja fjármögnun til að koma í veg fyrir skemmdir á ferðamannastöðum. Ég spyr hv. þingmann: Er það ekki réttur skilningur hjá mér?

Síðan talaði hv. þingmaður og hefur talað áður um almannaréttinn og vísaði til Grágásar. Nú er það þannig til dæmis í Dimmuborgum, það er reyndar dálítið langt síðan ég hef komið þangað, að þar eru stígar. Ef ég færi í Dimmuborgir og veifaði Grágás og segðist geta labbað þarna upp á strýturnar og hvert sem væri og vildi ekki fara eftir þessum stígum er ég hræddur um að það yrði upplit á einhverjum eftirlitsmönnum þar, ég mætti það alls ekki. Ef ég vildi endilega labba á þjóðvegi eitt, í miðjunni, akkúrat á miðju hvíta strikinu er ég ansi hræddur um að það yrði ekki leyft fyrir utan það að það er stórhættulegt, þannig að Grágás virkar ekki alveg í dag, það er ekki þannig. Hún virkaði ágætlega á sínum tíma og virkar víðast hvar ágætlega.

Það eru deilumál í gangi um það hvort einkaaðilar megi innheimta og þar rekast á tvö sjónarmið; annars vegar eignarrétturinn og hins vegar almannarétturinn og náttúruvernd. Það eru mál sem verður eðlilega að útkljá fyrir dómstólum. Ég held að rétt sé að bíða eftir því, en ég vil spyrja hv. þingmann: Er hann ekki örugglega hlynntur því að afla fjármagns til að bæta þessa staði?