144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:07]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel nú að ég hafi svarað því ágætlega, meðal annars með störfum mínum sem ráðherra á sínum tíma þegar við lögðum til og fengum samþykkt á Alþingi að leggja stóraukna fjármuni í þetta verkefni, sem núverandi ríkisstjórn skar því miður niður þannig að það væri frekar ég sem ætti að spyrja stjórnarliða: Eruð þið hlynntir því að eitthvað sé lagt í þessa uppbyggingu? Það leikur meiri vafi á því eins og framgangan hefur verið hér tvö undanfarin ár.

Það þarf að sjálfsögðu að afla til þess tekna svo hægt sé að standa sómasamlega að mörgum þáttum. Þar nefni ég líka landvörslu, umsjón með fjölsóttum ferðamannastöðum, úrbætur þar varðandi göngustíga og annað slíkt, bílastæði, salernisaðstöðu o.s.frv. en það þarf líka að leggja fjárfestingu í að ná fram breyttri dreifingu ferðamannanna um landið. Það þarf að dreifa álaginu með því að gera helst allt landið að þátttakendum í greininni. Þar af leiðandi er það hluti af verkefnum Framkvæmdasjóðs ferðamála að byggja upp nýja áfangastaði. Meiningin var og er að láta hluta fjármunanna ekki bara renna í úrbætur á þeim stöðum sem þegar eru að drukkna í fjölda ferðamanna, heldur að byggja líka upp nýja segla og nýja áfangastaði þannig að við getum dreift álaginu. Við þurfum annað eða fleiri hlið inn í landið og fleiri áhugaverða áfangastaði sem víðast. Það er ekkert vandamál að afla þessara tekna. Það er gert að hluta til í dag, til dæmis með hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu og niðurfellingu á undanþágum, þá mun greinin fara að greiða mun meiri skatta til ríkisins. Einfalt hefði verið að ákveða að eitthvað af þeim tekjuauka gengi í það verkefni. Gistináttagjaldið skilar um 250 millj. kr. á ári, það má efla það.

Síðan ætti Framkvæmdasjóður ferðamála að hafa heimild til að taka lán tímabundið til að fjárfesta næstu tvö, þrjú ár og greiða það svo til baka með sínum mörkuðu tekjum inn í framtíðina því að við munum ekki þurfa milljarða á ári um aldur og ævi en við þurfum að fjárfesta fyrir talsverðar fjárhæðir núna tvö til fjögur ár í röð og þá má aftur draga úr þeim fjárfestingum. Menn hafa reynt að meta fjárþörfina og liggur nokkuð fyrir að það þarf um 3–4 milljarða og eftir það mundi duga fé til viðhalds.