144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er athyglisvert að heyra hv. þingmann segja að það sé ekkert vandamál að afla tekna. Hann stóð nú í miklu basli hérna við að laga afskaplega erfiða stöðu ríkissjóðs eftir hrunið og það var bara ansi mikið mál að afla tekna. Vandi okkar í dag er einmitt sá að ríkissjóður skuldar bara allt of mikið og sú hugmynd að fara að taka lán sem yrði þá með ríkisábyrgð til að bæta úr skuldum ríkissjóðs (Gripið fram í.) finnst mér ekki vera neitt sérstaklega skynsamleg.

En varðandi útfærslu á framkvæmdinni, þ.e. að veita þeim starfsmönnum sem þarna eiga að hafa eftirlit nægilegar heimildir, þá er það alveg rakið verkefni fyrir hv. nefnd sem fær það til skoðunar að hafa það alveg skothelt ef hv. þingmaður telur að það sé eitthvað að í þeim efnum.

Breytt dreifing er líka eitt sem þyrfti að koma inn. Hugsanlega má gera það þannig að greiðslur úr þessum sjóði fari þá víðar en núna, inn á nýja staði o.s.frv. og er frumvarpið opið fyrir því. Það er því alveg hægt að auka dreifingu ferðamanna um landið. En vandinn er til staðar og ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála því að nauðsynlegt sé að vinda bráðan bug að því að finna fjármögnun á þessu verkefni fyrir vorið.